Fleiri Framúrskarandi fyrirtæki þrátt fyrir krefjandi rekstrarumhverfi

Einungis um 2,5% íslenskra fyrirtækja komast inn á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki en Creditinfo hefur valið fyrirtæki á þann lista í 15 ár, að undangengnum fjölda skilyrða. Það er því alls ekki auðvelt að komast á listann og sérstaklega í ár, að sögn Hrefnu Sigfinnsdóttur framkvæmdastjóra Creditinfo. „Árið 2024 hefur verið krefjandi í rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja vegna hárra vaxta, kjarasamninga og ólgu á alþjóðamörkuðum. Það er því ánægjuefni að sjá að fyrirtækjum er að fjölga á listanum okkar á milli ára undir svona erfiðum aðstæðum.

Þrátt fyrir að við höfum hert kröfur til að komast á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki þá hefur fyrirtækjum á listanum fjölgað um 12% í 1.131 fyrirtæki. Fyrirtækjum er því aftur að fjölga á listanum eftir litla fjölgun í kringum covid-19-faraldurinn. Þrátt fyrir þessa fjölgun, sem er ánægjuleg, skiptir miklu máli að ná verðbólgunni niður til að hægt sé að skapa tryggara rekstrarumhverfi fyrir íslenskt atvinnulíf.“

Stöðugleiki og skynsamlegur rekstur

Eitt af þeim skilyrðum sem þarf að uppfylla til að komast á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki er meðal annars að hafa náð rekstrarhagnaði yfir þriggja ára tímabil og Hrefna talar um að það sé því í raun verið að veita viðurkenningu fyrir stöðugan rekstur. „Stöðugleiki og skynsamlegur rekstur ratar hins vegar ekki alltaf á síður fjölmiðlanna og þess vegna er mikilvægt að hafa vettvang eins og Framúrskarandi fyrirtæki til að vekja athygli á þessum einstöku fyrirtækjum.

Ég held að það sé óhætt að segja að flest ef ekki öll fyrirtækin á listanum hafi staðið af sér margvíslegar áskoranir en með því að sýna ráðdeild í rekstri og þrautseigju hafa þau haldið velli í áranna rás. Það skiptir máli fyrir íslenskt efnahagslíf að hér starfi stöðug og traust fyrirtæki. Þetta eru sterkar fyrirmyndir enda er traustur og fjölbreyttur rekstur undirstaða hagsældar.“

Mikill metnaður

Aðspurð hvort það sé meira krefjandi fyrir lítil fyrirtæki en stór að fá vottun Framúrskarandi fyrirtækja segir Hrefna að stærð fyrirtækisins skipti ekki miklu máli hvað varðar líkur á að uppfylla skilyrðin. „Að öðru leyti en því að fyrirtæki sem velta yfir tveimur milljörðum eru líka spurð út í sjálfbærnimál. Við sjáum frekar að það sé munur á milli atvinnugreina hversu krefjandi það er fyrir fyrirtæki að verða Framúrskarandi. Það er því sérstakt ánægjuefni að sjá að fyrirtækjum í krefjandi atvinnugrein eins og ferðaþjónustunni er að fjölga á listanum í ár. Við höfum aukið kröfur um sjálfbærni til fyrirtækja ár frá ári og horft til getu fyrirtækjanna til að svara spurningum sem að þeim er beint.

Við sjáum að kröfur eru almennt að aukast til fyrirtækja til að standa að betri upplýsingagjöf þegar kemur að sjálfbærni. Er það bæði vegna nýrra krafna í lögum en einnig vegna þess að fjárfestar og lánastofnanir hafa metnað fyrir því að huga að sjálfbærniþáttum við ákvarðanatöku. Uppbygging listans hefur ekki breyst mikið vegna þessara auknu krafna en metnaður fyrirtækjanna í málaflokkunum er miklu frekar það sem stendur upp úr.“

Áreiðanleg gögn

Þá talar Hrefna um að vissulega sé sumt í mati á Framúrskarandi fyrirtækjum huglægt en matið fari engu að síður mjög faglega fram. „Við leggjum mikla áherslu á að taka ákvarðanir byggðar á áreiðanlegum gögnum. Við lögðum því mikla vinnu í að hafa nálgunina faglega strax í byrjun og byggja ákvörðunina á áreiðanlegum upplýsingum um sjálfbærniþætti fyrirtækja.

Þannig sjá fyrirtækin að mestu um valið á listann sjálf, það er út frá þeirra eigin svörum. Á þessum þremur árum höfum við líka lagt okkar af mörkum varðandi upplýsingar um sjálfbærniþætti í rekstri innlendra fyrirtækja. Við höfum þróað okkar eigin sjálfbærniviðmót sem við köllum Veru en þar má finna sjálfbærniupplýsingar um öll innlend rekstrarfélög.“

Framúrskarandi starfsfólk

Þegar komið er inn í Framúrskarandi fyrirtæki má gjarnan sjá merkingu þess efnis að fyrirtækið sé Framúrskarandi uppi á vegg og Hrefna talar um að það sé ánægjulegt hversu stolt forsvarsmenn og starfsmenn Framúrskarandi fyrirtækja eru. „Framúrskarandi merking er gjarnan áberandi í auglýsingum fyrirtækja og hefur hún jafnframt verið nýtt til að ná fram bættum kjörum hjá erlendum birgjum. Mörg Framúrskarandi fyrirtæki nýta ekki aðeins vottunina í að sýna hana út á við heldur kjósa að flagga henni innanhúss á meðal starfsmanna.

Svo er það gjarnan áberandi í viðtölum við forsvarsmenn Framúrskarandi fyrirtækja að þeir þakka fyrst og fremst starfsfólki sínu fyrir framúrskarandi árangur fyrirtækisins. Og það er eðlilegt að vera stoltur því það er gjarnan þrotlaus vinna starfsfólks Framúrskarandi fyrirtækja sem stuðlar að árangri þeirra. Svo getur vottunin haft jákvæð áhrif á reksturinn auk þess sem hún hefur jákvæð áhrif á starfsöryggi í fyrirtækjum. Eins getur vottunin laðað að nýtt starfsfólk en flestir vilja vinna hjá fyrirtæki sem gengur vel og er með rekstraröryggi. Vottunin getur líka skipt sköpum upp á aðgengi að fjármagni bæði frá birgjum og lika frá bönkum.“

Jákvæð gleðihátíð

Til að fagna og hylla Framúrskarandi fyrirtæki stendur Creditinfo fyrir hátíð í Hörpu miðvikudaginn 30. október en þar verður boðið upp á skemmtilega og ófhefðbundna dagskrá. Hrefna segir að í raun sé þetta uppskeruhátíð fyrir góðan rekstur og hún hlakkar mikið til að fagna þessum frábæra árangri með fyrirtækjunum sem eru á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki.

„Við erum kannski oft dugleg að beina sjónum að því sem er neikvætt í íslensku samfélagi en á gleðihátíðinni okkar beinum við eingöngu sjónum að því sem er jákvætt. Það er grundvöllur fyrir hagvöxt að við rekum blómlegt atvinnulíf á Íslandi.“

mbl.is
Samstarfsaðilar
Ath.: Vegna mistaka í töflu er pdf-útgáfan öðruvísi en prentuð útgáfa blaðsins sem dreift var þann 30. október 2024.