617 Flúðasveppir ehf.

Stærðarflokkur Meðalstórt
Röð innan flokks 279
Landshluti Suðurland
Atvinnugrein Landbúnaður, skógrækt og fiskveiðar
Starfsemi Ræktun á öðru ótöldu grænmeti, rótum og hnýði
Framkvæmdastjóri Georg Már Ottósson
Fyrri ár á listanum 2013–2014
Framúrskarandi 2024

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 539.175
Skuldir 380.069
Eigið fé 159.106
Eiginfjárhlutfall 29,5%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 1
Endanlegir eigendur 1
Eignarhlutur í öðrum félögum 2
Endanleg eign í öðrum félögum 5

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Ræktun grænmetis og melóna, róta og hnýðis

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Svepparækt er skemmtileg

Georg Ottósson eigandi Flúðasveppa
Georg Ottósson eigandi Flúðasveppa

„Ég tók við rekstri Flúðasveppa árið 2005 en fyrirtækið var stofnað árið 1984. Fyrsta árið í rekstri framleiddum við 500 kíló af sveppum á viku og þótti það mjög góð framleiðsla. Nú framleiðum við 11 tonn á viku svo ræktunin hefur aukist talsvert. Við ræktum þrjár tegundir af sveppum sem eru hvítu matarsveppirnir, kastaníusveppir og portobello-sveppirnir sem þykja sérstaklega góðir fyrir meltinguna,“ segir Georg Ottósson, eigandi og framkvæmdastjóri Flúðasveppa ehf. sem er svepparæktun skammt frá Flúðum á Suðurlandi.

Flúðasveppir veltu rúmum 688 milljónum króna á síðasta ári en veltan var 450 milljónir árið 2019. Eignir félagsins voru metnar rúmar 539 milljónir í lok ársins í fyrra. „Ég er einn eigandi fyrirtækisins, sem vekur athygli margra því yfirleitt er búið að selja svona félög eins og mitt inn í lífeyrissjóðina. Það eru fáir með fyrirtækin alveg á sinni könnu nú til dags. Ég er einnig með annað Framúrskarandi fyrirtæki sem er garðyrkjustöðin Flúðajöfri ehf. Það fyrirtæki er hér við hliðina á Flúðasveppum, svo rek ég Farmers Bistro í húsnæði Flúðaveppa,“ segir Georg um umfang rekstursins og bætir við að tekjur Flúðajöfra í fyrra hafi verið um 400 milljónir.

Georg Ottósson eigandi Flúðasveppa
Georg Ottósson eigandi Flúðasveppa

Á tvö fyrirtæki af sex á listanum

Það voru sex fyrirtæki á Flúðum valin á lista Framúrskarandi fyrirtækja 2024. „Ég á tvö þeirra sem hlýtur að teljast góður árangur,“ segir Georg og brosir. Þó reksturinn gangi vel þarf alltaf að vera að vanda sig að mati Georgs. „Viðskiptavinirnir eru ekki í áskrift og verðum við að passa að vera með samkeppnishæft verð. Ég bý án efa að því að hafa verið stjórnarformaður Sölufélags garðyrkjumanna í 25 ár,“ segir Georg sem var í hópi þeirra sem komu að samvinnufélagi Sölufélagsins á sínum tíma. „Síðar breyttum við samvinnufélaginu í hlutafélag og eru Flúðajöfri og Flúðasveppir stærstu hlutahafar í Sölufélaginu.“

Sölufélag garðyrkjumanna velti í fyrra tæpum fimm milljörðum íslenskra króna svo Georg hlýtur að vera mikill sérfræðingur í að búa til verðmæti á þessu sviði. „Ég er nú bara lærður íþróttakennari og var 23 ára þegar ég kom fyrst á Flúðir sem kennari. Ég byrjaði að setja niður nokkrar kálplöntur og fékk góða uppskeru. Þetta var á þeim tíma þegar kennarar höfðu aðeins lengra sumarfrí. Í upphafi tengdist áhugi minn á garðyrkju því að mig langaði að búa til vinnu fyrir börnin mín á sumrin. Þess vegna stofnaði ég Flúðajöfra árið 1977 ásamt fyrrverandi eiginkonu minni.

Við eigum fjögur uppkomin börn í dag, þrjú af þeim eru viðskiptafræðingar og er ég rosalega stoltur af þeim. Þegar við hittumst þá koma oft upp skemmtilegar samræður frá þessu tímabili. Þau vilja meina að þetta fallega litla fjölskyldufyrirtæki hafi á köflum verið hálfgerður þrældómur. Það er nú meira sagt í gamni en alvöru en þarna lærðu þau að vinna fyrir lífinu. Í dag rækta þau ekki grænmeti, heldur mannauðinn og viðskipti,“ segir Georg og það er auðheyrt á honum að ungt fólk geti lært ýmislegt sér til gagns og gamans í gegnum garðyrkju.

Flúðasveppir áttu fjörutíu ára afmæli nýverið. Ragnar Kristinn Kristjánsson stofnaði fyrirtækið og rak það í tuttugu ár áður en Georg tók við því. Aðspurður hvað hafi gerst í neyslu landsmanna á sveppum sem olli því að framleiðslan hafi aukist svona mikið, þá segir hann sveppi í tísku. „Þegar pítsurnar urðu vinsælar á Íslandi jókst salan á sveppum til muna. Svo hefur sveppaneysla aukist jafnt og þétt í gegnum árin, líklegast þegar okkur hefur tekist að auka fjölbreytileika í matargerð.“

Áhugavert að verða ræktunarþjóð

Þegar kemur að starfsumhverfi sveppaframleiðenda er auðheyrt á Georg að landsmenn þyrftu að fara í stefnumótun þegar kemur að garðyrkju almennt. Það hvort við viljum álver eða gróðurhús er góð spurning að velta upp að hans mati. „Ef við viljum vera ræktunarþjóð þá þurfum við að vinna að því að vera samkeppnishæf á því sviði. Margar vörur sem eru innfluttar til landsins eru ekki gerðar með sömu aðferðum og við notum. Ég er ekki á móti innflutningi en við verðum að taka afstöðu í þessum málum og passa upp á hagsmuni okkar. Stóru verslunarkeðjurnar gefa okkur góð pláss í verslunum sínum en við höfum þurft að hafa fyrir því að ná þangað. Rafmagnsreikningurinn okkar er hár, bæði í svepparæktun sem og í gróðurhúsunum. Við notum heilmikla orku í svepparæktina, aðallega þegar við erum að búa til rotmassann.

Í svepparæktinni fáum við ekki gróðurhúsataxta í raforkuflutningi. Svo erum við á frjálsum markaði með að kaupa orkuna. Það er búið að segja okkur upp þegar kemur að samningi um orkuna sem er búið að standa til að gera lengi. Orkufyrirtækin vilja hærra verð til sín, svo ekki sé talað um ef orkuskortur verður í landinu þá fá þeir rafmagnið sem borga aðeins meira fyrir það. Það kemur illa niður á okkur. Allt að 80% of orku landsins fara til álveranna, restin fer í allan annan iðnað og heimilin í landinu nota ekki nema um fimm prósent af allri orku. Við þurfum á góðu verði að halda til að vera á réttu róli,“ segir hann og bætir við: „Svepparækt er skemmtileg, svo ekki sé talað um alla þá góðu rétti sem elda má úr sveppum. Sveppir eru í tísku núna og sé ég áhuga á þeim bara vaxa með árunum líkt og við sjáum í Evrópu. En maður ræktar ekki sveppi einn og er ég einstaklega þakklátur fyrir starfsfólkið mitt sem hefur unnið með mér að þessu góða verkefni. Það sem mig langar að gera í framtíðinni er að halda áfram á sömu braut og auka við tegundir í framleiðslu í framtíðinni,“ segir Georg Ottósson eigandi Flúðasveppa.

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar
Ath.: Vegna mistaka í töflu er pdf-útgáfan öðruvísi en prentuð útgáfa blaðsins sem dreift var þann 30. október 2024.