Hlutabréfaviðskipti talin munu aukast

VIÐSKIPTASTOFA Íslandsbanka mun frá og með deginum í dag, bjóða viðskiptavinum sínum upp á valréttarviðskipti. Bankinn lýsir sig opinberlega viðskiptavaka sem lýtur eftirliti Verðbréfaþings Íslands. Seljanleiki hlutabréfa er talinn aukast með nýrri viðskiptavakt en valréttur gefur færi á að tryggja stöðu á markaði án þess að til sölu bréfa þurfi að koma. Frá þessu var greint á kynningarfundi bankans í gær.
 Íslandsbanki lýsir sig opinberlega viðskiptavaka, fyrstur aðila á fjármálamarkaði með viðskiptavakt á fimm fyrirtækjum á hlutabréfamarkaði. Þau eru Eimskip, Flugleiðir, Grandi, Samherji og Íslandsbanki. Í vaktinni felst að sett verða fram kaup og sölutilboð að fjárhæð 2 milljónir króna og þau endurnýjuð innan við 10 mínútum eftir að viðskipti eiga sér stað. Bankinn lýsir sig jafnframt óformlega viðskiptavaka með fimm önnur fyrirtæki í úrvalsvísitölu Verðbréfaþings.

Minnkar skammtímasveiflur

 Valréttarviðskipti hafa tíðkast um skeið á gjaldeyrismarkaði og hefur velta slíkra viðskipta aukist stöðugt. Valréttarviðskipti á hlutabréfamarkaði eru talin mikilvægt skref til að auka dýpt markaðarins hérlendis, minnka skammtímasveiflur í verði og gera hlutabréf að seljanlegri og þar með verðmætari eign, að því er fram kom á fundinum.
 Slíkur valréttarsamningur veitir kaupanda samningsins rétt, en ekki skyldu til að kaupa eða selja eign á ákveðnu verði á ákveðnum tíma í framtíðinni. Samningurinn er því einskonar tryggingasamningur sem ákveðið iðgjald er greitt fyrir í upphafi en er aðeins nýttur ef aðstæður eru hagstæðar. Sú eign sem samið er um, getur verið af hvaða tagi sem er og í fréttatilkynningu frá Íslandsbanka kemur fram að hér á landi hafi valréttarviðskipti með gjaldeyri notið síaukinna vinsælda.

Tvenns konar valréttarsamningar

 Valréttarsamningar eru í grundvallaratriðum af tvennum toga; Kaupréttir og söluréttir. Eins og nöfnin gefa til kynna gefur kaupréttarsamningurinn rétt til að kaupa ákveðna vöru á tilteknum tíma á tilteknu verði en söluréttarsamningur gefur á sama hátt rétt til að selja.
 Á fundinum kom fram að hafi fjárfestir trú á hækkun hlutabréfaverðs en vilji takmarka sína áhættu, getur hann keypt sér kauprétt á Úrvalsvísitöluna eftir tiltekinn tíma sem nemur ákveðinni samningsupphæð. Hafi vísitalan hækkað þegar kemur að uppgjörsdegi, fær fjárfestirinn greidda út hlutfallslega breytingu vísitölunnar margfaldaða með samningsupphæðinni. Það sem í raun gerist við uppgjör er að fjárfestirinn "kaupir vísitöluna" á því gengi sem samið var um þegar samningurinn var gerður og "selur vísitöluna" um leið á uppgjörsgengi sem ræðst á markaði. Sé söluverðið hærra en kaupverðið er fjárfestirinn augljóslega að hagnast. Hafi vísitalan á hinn bóginn lækkað, nýtir fjárfestirinn ekki kaupréttinn og er laus allra mála.
 Stefán Halldórsson, framkvæmdastjóri Verðbréfaþings, tók til máls á fundinum og sagði þetta mikilsvert framtak sem bæri að fagna og benti á að afleiðuviðskipti næðu yfir 2/3 hluta af heildarverðmæti hlutabréfaviðskipta á heimsmarkaði. Hann sagði að búast mætti við að viðskipti myndu aukast í kjölfarið, samhliða því að draga úr áhættu og minnka sveiflur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK