Benedikt Sveinsson nýr stjórnarformaður

Indriði Pálsson óskar Benedikt Sveinssyni nýjum stjórnarformanni til hamingju. Með …
Indriði Pálsson óskar Benedikt Sveinssyni nýjum stjórnarformanni til hamingju. Með þeim á myndinni er Hörður Sigurgestsson. Morgunblaðið/Ásdís

BENEDIKT Sveinsson var kosinn stjórnarformaður Eimskipafélags Íslands á stjórnarfundi sem haldinn var að loknum aðalfundi félagsins í gær. Indriði Pálsson, sem hefur verið stjórnarformaður Eimskips síðastliðin sjö ár, gaf ekki kost á sér til stjórnarstarfa í félaginu eftir hartnær 23 ára stjórnarsetu. Í stað Indriða kom Kolbeinn Kristinsson, formaður Verslunarráðs Íslands, nýr inn í stjórn Eimskips.

 Að sögn Indriða tók hann ákvörðun um að hætta í stjórn Eimskips fyrir allnokkru og af vel yfirveguðu máli. Hann hefur ákveðið að hætta störfum í stjórnum fleiri félaga. Það muni koma í ljós á næstu vikum hver þau félög eru en hann muni áfram sitja í stjórnum einhverra félaga. "Ég hætti í stjórn Eimskips með eftirsjá og þakklæti eftir stjórnarsetu í tæp 23 ár, þar af sem stjórnarformaður síðastliðin sjö ár. Miklar breytingar hafa átt sér stað á þessum árum og ég vona að þær breytingar haldi áfram. Forstjóri félagsins, Hörður Sigurgestsson, hefur unnið gott verk og velgengni fyrirtækisins hefur að mestu byggst á krafti hans, áræði og góðum stjórnunarhæfileikum. Það hefur aldrei fallið skuggi á okkar nána samstarf og góða samvinnu."

Ekki miklar breytingar í vændum

 Benedikt Sveinsson segir að ekki verði um neinar snöggar breytingar á rekstri né stefnu Eimskips þrátt fyrir stjórnarformannsskipti. "Ég hef setið í stjórn félagsins í 13 ár og á von á að starfsemin haldi áfram með svipuðum hætti og verið hefur. Allar breytingar taka tíma en við munum reyna að vera leiðandi fyrirtæki í íslensku atvinnulífi eins og Eimskip hefur verið alla tíð."  Í ræðu Indriða Pálssonar á aðalfundinum í gær kom fram að afkoma af hefðbundinni flutningastarfsemi félagsins hér á landi hafi verið betri á síðastliðnu ári en árið 1997. Hins vegar náðust ekki að fullu markmið félagsins um hagnað af reglulegri starfsemi vegna efnahagserfiðleika í Rússlandi og taps af rekstri Maras Linija svo og vegna 153 milljóna króna gengistaps, sem varð vegna óhagstæðra gengissveiflna erlendra gjaldmiðla.  Í ræðu Harðar Sigurgestssonar kom fram að veltuaukning innanlands á síðasta ári var um 7% en í heild aðeins 2% vegna samdráttar erlendis. "Það eru mikil vonbrigði að ekki tókst betur til með landnám félagsins í Rússlandi, en það var ekki auðvelt að sjá fyrir að þetta væri ekki rétti tíminn til þess. Við höfum tekið afleiðingunum af því og lokað þeirri starfsemi," að sögn Harðar.

153 milljóna króna gengistap

 Gengistap félagsins var 153 milljónir árið 1998 samanborið við 19 milljóna króna gengishagnað árið á undan. Að sögn Harðar skýrist gengistapið af þróun á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum, einkum af styrkingu japanska jensins á síðari hluta ársins.  Á síðasta ári hafði félagið áform um að kaupa 1-2 skip til áætlanasiglinga. Að sögn Indriða varð ekki af því af tveimur ástæðum. "Í fyrsta lagi hefur markaðsverð skipa, bæði söluverð og leiguverð, farið lækkandi á undanförnum misserum. Það hefur því verið félaginu hagfellt að doka við með fjárfestingar í skipum. Í öðru lagi skapaði það óvissu að ekki lá fyrir hver yrði niðurstaðan með flutning á vörum fyrir varnarliðið, en það kann að hafa nokkur áhrif á stærð skipa félagsins í Ameríkusiglingum. Áform eru um að kaupa skip á þessu ári og selja eitthvað af eldri skipum félagsins."

Áform um stækkun Sundakletts

 Nánast öll dagleg afgreiðsla og þjónusta Eimskips við viðskiptavini sína, eða um 85%, hefur nú verið flutt í Sundaklett, þjónustumiðstöð félagsins í Sundahöfn. Í ræðu Indriða kom fram að ákveðið hefur verið að stækka Sundaklett á árinu 1999 með viðbyggingu sem verður nánast jafn stór og eldri bygging. Aðstaða starfsmanna og viðskiptamanna muni batna verulega við þessa nýju byggingu. Þó að stærri hluti starfseminnar hafi verið fluttur í Sundahöfn verða höfuðstöðvar félagsins áfram í Pósthússtræti 2 að minnsta kosti næstu árin. Að sögn Indriða er unnið að því að selja lóð félagsins við Skúlagötu en sú lóð kom til álita undir ráðstefnumiðstöð sem stjórnvöld og borgaryfirvöld stefna að byggingu á reitnum norðaustan við Eimskipafélagshúsið.  Bókfært verðmæti hlutabréfaeignar Burðaráss nam 5.497 milljónum króna í árslok 1998 þar af var um 92% eða 5.073 milljónir króna í fyrirtækjum sem skráð eru á hlutabréfamarkaði. Markaðsverð hlutabréfaeignar félagsins í félögum á hlutabréfamarkaði var á sama tíma 9.657 milljónir króna.  Í ræðu Harðar kom fram að eignir Burðaráss endurspegli nær því 40% af heildarmarkaðsverðmæti Eimskips um þessar mundir. "Starfsemi og verðmæti félagsins í dag hvílir því á tveimur grunnþáttum: flutningastarfsemi og fjárfestingum í íslenskum atvinnurekstri," að sögn forstjóra Eimskips.  Indriði kom inn á í ræðu sinni þær breytingar sem hafa verið á rekstri Eimskips á þessum áratug. "Í dag byggist rekstur félagsins á alhliða flutningastarfsemi annars vegar og fjárfestingum í íslensku atvinnulífi hins vegar. Árangur félagsins má þakka því að það hefur aðlagað sig breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu, tileinkað sér nýja tækni og ávallt leitast við að mæta þörfum viðskiptamanna sinna.  Í fyrstu stundaði Eimskip eingöngu siglingar, en í dag sinnir félagið alhliða flutningum, flutningamiðlun og tengdri þjónustu hér á landi og víða erlendis. Í vaxandi mæli hefur félagið fjárfest í annarri starfsemi."

Alþjóðavæðing að skila sér

 Að sögn Indriða hófst alþjóðavæðing íslensks atvinnulífs á síðari hluta níunda áratugarins. "Nánast allar atvinnugreinar sækja á erlendan markað hvort sem er fyrirtæki í sjávarútvegi, flutningastarfsemi, hátæknigreinum eða á öðrum sviðum. Við erum aftur á móti á bernskuskeiði alþjóðavæðingar, sem er að byrja að skila sér í almennri eflingu atvinnulífs á Íslandi og mun eflaust leggja grunn að bættum lífskjörum íslensku þjóðarinnar til framtíðar. Það er mikilvægt að almenningur og stjórnvöld styðji við þessa þróun. Eimskip hefur verið þátttakandi í þessari þróun. Félagið hefur lagt mikla áherslu á að tileinka sér nýjungar á fjármálamarkaði, í stjórnunarháttum og upplýsingatækni."  Að sögn Indriða bendir ýmislegt til þess að á síðari hluta þessa árs fari að bera á samdráttareinkennum á ákveðnum sviðum. "Þess er þegar farið að gæta í söluverði á ýmsum sjávarafurðum. Það mun fljótlega hafa áhrif og þess vegna má vænta nokkurra umskipta á síðari hluta þessa árs. Við erum aftur á móti betur í stakk búin nú en oftast áður að mæta slíku ástandi. Gildir það bæði um Eimskip og önnur fyrirtæki svo og þjóðarbúið allt. Eimskip á ýmis sóknarfæri, einkum í flutningastarfsemi erlendis, og á ýmsum öðrum sviðum hér innanlands. Samkeppni í flutningastarfsemi er hörð og mun svo verða áfram," sagði Indriði Pálsson, fráfarandi stjórnarformaður Eimskipafélags Íslands, á aðalfundi félagsins í gær.  Á fundinum var samþykkt samhljóða að greiða 10% til hluthafa af nafnverði hlutafjár um síðustu áramót. Það jafngildir um 306 milljóna króna greiðslu til hluthafa.  Í stjórn Eimskips eru Benedikt Sveinsson, stjórnarformaður, Garðar Halldórsson, varaformaður, Jón H. Bergs, Hjalti Geir Kristjánsson, Jón Ingvarsson, Gunnar Ragnars, Baldur Guðlaugsson, Kristinn Björnsson og Kolbeinn Kristinsson.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK