Fiskveiðistjórnun á alþjóðlegum vettvangi var helst til umræðu í tvíhliða viðræðum Bandaríkjamanna og Íslendinga sem lauk um sl. helgi. Þá var bandarísku sendinefndinni kynnt stjórnun fiskveiða á Íslandi. Talsmenn nefndarinnar sögðu Helga Mar Árnasyni að Bandaríkjamenn geti margt lært af íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu.TVÍHLIÐA viðræðum Bandaríkjamanna og Íslendinga um sjávarútvegsmál lauk um sl. helgi. Voru þetta fyrstu viðræður ríkjanna af þessu tagi. Hingað til lands kom sérstök sendinefnd frá Bandaríkjunum skipuð háttsettum embættismönnum úr bandaríska stjórnkerfinu á sviði alþjóðamála og sjávarútvegs.
Mary Beth West veitti sendinefndinni forstöðu en hún er sendiherra og aðstoðarframkvæmdastjóri þeirrar deildar bandaríska utanríkisráðuneytisins sem fer með alþjóðleg málefni sjávarútvegsins og umhverfis- og vísindamálefni. Þá var í nefndinni Rolland A. Schmitten, aðstoðarframkvæmdastjóri umhverfismálasviðs bandaríska viðskiptaráðuneytisins. Mary Beth West sagði í samtali við Morgunblaðið að rædd hafi verið flest þau mál sjávarútvegs þar sem þjóðirnar tvær hafa hagsmuna að gæta á alþjóðlegum vettvangi, einkum á vettvangi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). "Íslendingar hafa auk þess lagt til í Alþjóða viðskiptastofnuninni að dregið verði úr ríkisstyrkjum í sjávarútvegi sem oft leiða til ofveiði fiskistofna. Á fundum okkar með íslenskum ráðamönnum höfum við meðal annars rætt um ríkisstyrktan sjávarútveg og hvernig þróun hans verður háttað á næstu árum. Bandaríkin styðja þessa viðleitni Íslendinga heils hugar og ríkisstjórnir beggja ríkjanna munu setja þetta mál í forgang, ásamt öðrum ríkjum. Við ræddum einnig mikið um alþjóðlegar stofnanir á sviði sjávarútvegs en einnig svæðisbundna stjórnun fiskveiða, til að mynda um samstarf þjóðanna í alþjóðlegum fiskveiðisamtökum, s.s. Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni, NAFO, og Suðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni, SEAFO, sem eru ný samtök sem verið er að koma á legg. Þá var einnig rædd aðild Íslands að Alþjóða túnfiskveiðiráðinu, ICCAT. Þjóðirnar hafa átt mikið samstarf á undanförnum árum en ég er þess fullviss að viðræður sem þessar eru skref í átt að enn nánari samvinnu," sagði Mary. Mary sagði fiskveiðistjórnun beggja ríkjanna einnig hafa borið oft á góma í viðræðunum. "Við erum miklu fróðari um fiskveiðistjórnunarkerfið sem Íslendingar tóku upp árið 1983, hið svokallaða kvótakerfi. Það stóð til að taka upp samskonar kerfi í Bandaríkjunum en fæðing þess var kæfð í þinginu fyrir fáum árum. Okkur leikur því mikil forvitni á að vita hvernig til hefur tekist með kvótakerfið á Íslandi, hver áhrif þess eru á auðlindina sjálfa en ekki síður hin félagslegu og efnahagslegu áhrif," sagði hún.