Ólíkar áherslur í fiskveiðistjórnun

Fiskveiðistjórnun á alþjóðlegum vettvangi var helst til umræðu í tvíhliða viðræðum Bandaríkjamanna og Íslendinga sem lauk um sl. helgi. Þá var bandarísku sendinefndinni kynnt stjórnun fiskveiða á Íslandi. Talsmenn nefndarinnar sögðu Helga Mar Árnasyni að Bandaríkjamenn geti margt lært af íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu.TVÍHLIÐA viðræðum Bandaríkjamanna og Íslendinga um sjávarútvegsmál lauk um sl. helgi. Voru þetta fyrstu viðræður ríkjanna af þessu tagi. Hingað til lands kom sérstök sendinefnd frá Bandaríkjunum skipuð háttsettum embættismönnum úr bandaríska stjórnkerfinu á sviði alþjóðamála og sjávarútvegs.

 Mary Beth West veitti sendinefndinni forstöðu en hún er sendiherra og aðstoðarframkvæmdastjóri þeirrar deildar bandaríska utanríkisráðuneytisins sem fer með alþjóðleg málefni sjávarútvegsins og umhverfis- og vísindamálefni. Þá var í nefndinni Rolland A. Schmitten, aðstoðarframkvæmdastjóri umhverfismálasviðs bandaríska viðskiptaráðuneytisins. Mary Beth West sagði í samtali við Morgunblaðið að rædd hafi verið flest þau mál sjávarútvegs þar sem þjóðirnar tvær hafa hagsmuna að gæta á alþjóðlegum vettvangi, einkum á vettvangi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). "Íslendingar hafa auk þess lagt til í Alþjóða viðskiptastofnuninni að dregið verði úr ríkisstyrkjum í sjávarútvegi sem oft leiða til ofveiði fiskistofna. Á fundum okkar með íslenskum ráðamönnum höfum við meðal annars rætt um ríkisstyrktan sjávarútveg og hvernig þróun hans verður háttað á næstu árum. Bandaríkin styðja þessa viðleitni Íslendinga heils hugar og ríkisstjórnir beggja ríkjanna munu setja þetta mál í forgang, ásamt öðrum ríkjum. Við ræddum einnig mikið um alþjóðlegar stofnanir á sviði sjávarútvegs en einnig svæðisbundna stjórnun fiskveiða, til að mynda um samstarf þjóðanna í alþjóðlegum fiskveiðisamtökum, s.s. Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni, NAFO, og Suðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni, SEAFO, sem eru ný samtök sem verið er að koma á legg. Þá var einnig rædd aðild Íslands að Alþjóða túnfiskveiðiráðinu, ICCAT. Þjóðirnar hafa átt mikið samstarf á undanförnum árum en ég er þess fullviss að viðræður sem þessar eru skref í átt að enn nánari samvinnu," sagði Mary.  Mary sagði fiskveiðistjórnun beggja ríkjanna einnig hafa borið oft á góma í viðræðunum. "Við erum miklu fróðari um fiskveiðistjórnunarkerfið sem Íslendingar tóku upp árið 1983, hið svokallaða kvótakerfi. Það stóð til að taka upp samskonar kerfi í Bandaríkjunum en fæðing þess var kæfð í þinginu fyrir fáum árum. Okkur leikur því mikil forvitni á að vita hvernig til hefur tekist með kvótakerfið á Íslandi, hver áhrif þess eru á auðlindina sjálfa en ekki síður hin félagslegu og efnahagslegu áhrif," sagði hún.

Ólíkar áherslur í fiskveiðistjórnuninni

 Rolland A. Scmitten sagði mjög athyglisvert að heyra hvernig þróun kvótakerfis í fiskveiðum hafi háttað á Íslandi á undanförnum árum. "Eitt af því sem var talsvert rætt um voru félagsleg og efnahagsleg áhrif kvótakerfisins á lítil samfélög. Við stöldruðum meðal annars við eignarrétt í slíku kerfi og veltum því fyrir okkur hvort kerfið leiddi til þess að fyrirtækjasamsteypur í sjávarútvegi yrðu sterkari gagnvart einstaklingsfyrirtækjum. Þetta atriði skiptir gríðarlega miklu máli í Bandaríkjunum. Á Íslandi eru til dæmis um 80% togara í eigu fiskvinnslufyrirtækjanna. Í Bandaríkjunum er þetta hlutfall aðeins 3-5%. Um þetta atriði sköpuðust því líflegar umræður því við virðumst vera með aðrar áherslur í fiskveiðistjórnun okkar að þessu leyti. Í Bandaríkjunum hafa fiskimennirnir sjálfir mun meira um uppbyggingu kerfisins að segja, sem og vísinda- og umhverfisstofnanir og þessir aðilar taka ákvarðanir sem lúta að fiskveiðistjórnun. Þá hefur þess verið gætt í Bandaríkjunum að festa ekki eignarrétt í kvótanum sjálfum og að stjórnvöld geti afnumið kvótann hvenær sem er. Það er meðal annars gert til að eitt fyrirtæki eignist ekki of stóran hluta kvótans. Íslenska kerfið virðist hinsvegar vera miðstýrðara en þau kvótakerfi sem eru rekin í Bandaríkjunum en virðist hinsvegar ganga mjög vel. Líklega væri blanda af báðum þessum aðferðum besta lausnin. Kvótakerfið hefur verið lengi við lýði á Íslandi og við höfum séð hvar gengið hefur vel en einnig hefur okkur verið bent á það sem betur hefði mátt fara. Þessar viðræður hafa því verið geysilega lærdómsríkar."

Dýpri skilningur á hvalveiðimálum

 Mary sagði hvalveiðar hafa verið ræddar á fundum með íslenskum ráðamönnum. Hún sagðist leggja áherslu á að þó þjóðirnar greindi á varðandi hvalveiðar væri mikilvægt að sá ágreiningur hefði ekki áhrif á gott samstarf þjóðanna í sjávarútvegi, hér eftir sem hingað til. "Við ræddum þessi mál af mikilli hreinskilni og þess vegna tel ég að við höfum öðlast dýpri skilning á afstöðu Íslendinga í hvalveiðimálum og öfugt, án þess þó að afstöðubreyting hafi orðið. Við getum fallist á ýmis sjónarmið Íslendinga um hvalveiðar, til dæmis að taka eigi ákvarðanir á grundvelli vísinda," sagði Mary Beth West.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK