Áhrifin geta bæði verið mikil og lítil

FRUMNIÐURSTÖÐUR rannsókna á áhrifum botnveiðarfæra á hafsbotninn og lífríki hans hér á landi, eru væntanlegar á næstunni. Rannsóknir þessar voru gerðar á Stakksfirði við Keflavík á tímabilinu frá júní 1997 til janúar 1998 og er úrvinnsla sýna vel á veg komin. "Ég get ekkert sagt enn um áhrif botnveiðarfæra á lífríki botnsins, þar sem frekar úrvinnslu gagna er þörf," segir Stefán Áki Ragnarsson, sjávarlíffræðingur á Hafrannsóknastofnun, í samtali við Morgunblaðið. Ekkert togað áratugum saman Að sögn Stefáns Áka varð Stakksfjörður fyrir valinu, þar sem hann hefur verið lokaður fyrir togveiðarfærum áratugum saman. Þarna er leirbotn og fór rannsóknin þannig fram að tekin voru nokkur tilraunatog með trolli. Sýni voru svo tekin þar sem trollið hafði farið yfir í júní, ágúst 1997 og janúar 1998 og þau borin saman við sýni af þeim svæðum af botninum, sem ekki var togað yfir. Meðal annars er þéttleiki og samsetning botndýra í þeim borinn saman. Samanburður sýna, sem tekin voru í fyrsta leiðangri í júní er nú langt kominn.

Hegðan botnveiðarfæra rannsökuð

 Engar rannsóknir af þessu tagi hafa verið gerðar hér við land áður. Það, sem næst kemur eru rannsóknir Guðna heitins Þorsteinssonar, veiðarfærafræðings Hafrannsóknastofnunar, á hegðan veiðarfæra í sjó, botntrolla og dragnóta. Þær voru meðal annars unnar með myndatöku neðansjávar og sýna að botnsetið þyrlast nokkuð upp, ekkert hvort það veldur skaða eða ekki. Nú stendur einnig yfir samnorrænt verkefni sem heitir botndýr á Íslandsmiðum. Markmið þess er að kanna og skrá botndýrafánuna við landið og fást þar einnig upplýsingar, sem geta nýtzt við rannsóknir á áhrifum veiðarfæranna. Fremur lítið er vitað um botngerð hér við land, til dæmis um útbreiðslu kóralla.  Mikill áhugi er á rannsóknum á áhrifum botnveiðarfæra á botninn og lífríki hans víða um heiminn. Rannsóknir við Noreg sýna meðal annars að botntroll geta valdið miklum skemmdum á kóralrifum og lífríkinu við þau.

Mikið um rannsóknir og ráðstefnur

 Stefán Áki segir að rannsóknir af þessu tagi hafi verið litlar sem engar í heiminum þar til á allra síðustu árum í kjölfar mikillar umræðu um skaðsemi veiðarfæra á botninn og lífríki hans. Nú sé mjög mikið um rannsóknir, og vinnufundir og ráðstefnur um þessi mál orðnar algengar. Menn séu að átta sig betur á því hver skaðsemin er og þá hvaða aðgerðum megi beita til að draga úr henni og sé þá helzt talað um lokanir viðkvæmra svæða.  "Það er mjög mismunandi hverjar niðurstöður þessara rannsókna hafa verið. Sumar hafa sýnt sama og engin áhrif, en aðrar mjög mikla skaðsemi. Áhrifin virðast ráðast af botngerð og hve viðkvæm dýrin á botninum eru. Sem dæmi ná nefna kóralinn. Hann hreinlega brotnar, þegar dregið er yfir hann og þar með hverfa öll þau dýr sem lifa í sambýli við kóralinn og það er mjög fjölbreytt dýralíf."

Breytt botndýralíf

 "Á öðrum stöðum, til dæmis þar sem botn er sendinn, eru áhrifin mjög lítil. Þar eru oft mjög smá dýr sem einfaldlega þyrlast upp með sandinum og setjast á botninn aftur án þess að verða fyrir skaða. Stærri dýrum er aðallega hætt, svo sem samlokum, ígulkerum og fleiri dýrum sem geta brotnað.  Eitt af því, sem er mikið vandamál í Norðursjónum, þar sem megnið af þessum rannsóknum hafa farið fram, er að þar eru eiginlega engin óröskuð svæði til samanburðar. Það er búið að toga á þessum svæðum áratugum saman og hugsanlegt er að samsetning botndýra hafi einfaldlega breytzt vegna þessarar stöðugu röskunar, en mengun gæti einnig ráðið miklu. Þar eru því komin botndýr, sem hafa lagað sig að þessum aðstæðum, en stærri og viðkvæmari botndýr eru kannski horfin af röskuðum svæðum.  Í stórum dráttum eru rannsóknir af þessu tagi nýjar hér við land og nýlegar um allan heim. Vaxandi áherzla er á að finna út hvort botnveiðarfærin valdi skaða og þá hver hann sé og hvernig sé hægt að bregast við. Vitað er að við vissar aðstæður virðist skaðinn lítill sem enginn, en við aðrar getur hann verið mjög mikill," segir Stefán Áki Ragnarsson.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK