Stefnan að bjóða ávallt bestu kjörin

NETBANKINN, fyrsti bankinn á Íslandi sem starfræktur er að öllu leiti á Netinu, tók formlega til starfa í gær. Fyrirtækið sem er á ábyrgð og í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, verður rekið sem sjálfstæð rekstrareining innan SPRON. Yfirlýst stefna bankans er að bjóða ávallt bestu kjör í vöxtum og að sögn forsvarsmanna hans verða innlánsvextir umtalsvert hærri og útlánsvextir nokkuð lægri en áður hefur þekkst hér á landi. Þetta er unnt með lítilli yfirbyggingu, miklu aðhaldi í rekstri auk þess sem Netbankinn rekur engin útibú. Aðgengi að bankanum verður eingöngu í gegnum Netið, tölvupóst, síma, sjálfsafgreiðslutæki (snertibanka og hraðbanka) og fax. Heimaslóð Netbankans er www.nb.is en forsvarsmaður hans er Geir Þórðarson.

 Bankinn mun til að byrja með eingöngu þjónusta launþega. Ætlunin er m.a. að bjóða upp á debetkortareikning með stighækkandi vöxtum, sparireikninga með markaðstengdri ávöxtun, afborgunarsamninga, veltukort hliðstæð því sem SPRON hleypti af stokkunum í mars sl., og fasteignalán til allt að 30 ára.  Lægstu innvextir á debetkortareikningum verða 3,02% en hæstu vextir 8,52%. Skiptingin verður með þeim hætti að inneign upp að 500 þúsund krónum ber 3,02% vexti. Fyrir inneign frá 501-1.500 þúsund krónum greiðast 8,02% vextir og 8,52% vextir ef inneign er hærri en 1,5 m.kr.  Kristinn Tryggvi Gunnarsson, verkefnisstjóri Netbankans, segir stighækkandi vexti á debetkortareikningi vera nýjung á íslenskum bankamarkaði sem miði að því að hámarka þjónustu við viðskiptavini sem þurfa ekki að færa peninga á milli reikninga til að fá betri kjör. "Fyrir þá sem vilja leggja fyrir til lengri tíma, bjóðum við upp á tvennskonar leiðir; Annarsvegar er um að ræða óbundinn markaðsreikning sem tekur mið af ávöxtun á millibankamarkaði (REIBOR) og ber 9,02% vexti. Hins vegar er um að ræða bundinn markaðsreikning með 6,01% vexti og verðtryggingu sem tekur mið af ávöxtun spariskírteina ríkissjóðs. Þá bjóðum við jafnframt sérstakt netkort sem er hliðstætt veltukorti SPRON. Þar eru vextir 15% og færslugjald 11 krónur. Stofngjald er 500 krónur og úttektarheimild allt að 2 milljónum króna. Önnur nýjung eru afborgunarsamningar sem eru einskonar skuldabréfalán til allt að fimm ára. Þar er lántökugjald einungis 1% og þau því hagstæðari en raðgreiðslur, venjuleg skuldabréf og jafnvel bílalán", að sögn Kristins.

Þjónustan óháð búsetu

 Líkt og innlánsvextirnir, eru útlánsvextirnir nokkuð breytilegir. Vextir af yfirdráttarlánum eru á bilinu 11,50-16%. Afborgunarsamningar af óverðtryggðum lánum eru frá 10,50-15,20%, allt eftir greiðslugetu og veðsetningu. Vextir af verðtryggðum fasteignalánum fara eftir veðsetningarhlutfalli og tímalengd. Þar er um að ræða 5-30 ára veðlán með föstum vöxtum frá 6,2-8,50%.  Að sögn Kristins, hafa allir ferlar verið hannaðir með það fyrir augum að auðvelda aðgang viðskiptavina sem mest. "Fólk skráir sig einfaldlega heima og fær kortið afhent í ábyrgðarpósti innan fimm daga. Þannig sitja allir landsmenn við sama borð hvað þjónustu varðar, óháð búsetu."  Ólíkt því sem tíðkast í hefðbundnum bankaviðskiptum krefst Netbankinn ekki ábyrgðarmanna, heldur er væntanlegum viðskiptavinum gert að fylla út umsókn á Netinu og að lokinni eignakönnun og greiðslumati er úthlutað lánaheimild til viðskiptavinarins, sem tryggð er tryggingabréfi í fasteign. Að því fengnu getur viðkomandi gengið að lánaheimildinni vísri og það eina sem hann þarf að gera er að senda tölvupóst um upphæð og lánstíma og lánið er afgreitt um hæl. Lánsheimildinni má ráðstafa á milli ólíkra reikninga en til að viðhalda henni þurfa viðskiptavinir að senda bankanum afrit af skattskýrslu sinni árlega.

Stefnt á að þjónusta stærri hópa

 Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri SPRON, segir aðdragandann að stofnun nýja Netbankans fremur stuttan, eða u.þ.b. tvö ár. "Með þessu framtaki viljum við byggja á nýrri og opinni hugsun sem gerir okkur kleift að þróa þessa tækni og samskipti við viðskiptavininn inn í næstu öld. Við erum að sjá fjármálaþjónustu vera að færast í auknum mæli á Netið og þetta er einfaldlega liður í þeirri þróun."  Hann leggur áherslu á að þrátt fyrir að bankinn þjónusti í upphafi einungis einstaklinga, þá er ætlunin að vinna áfram með hugmyndina og stefnt á að þjónusta stærri hópa í framtíðinni s.s. fyrirtæki, sjálfstæða atvinnurekendur og verktaka. Aðspurður um stofnkostnað Netbankans segir Guðmundur að hann hlaupi á tugum milljóna króna. "Hér er um mjög hagkvæma rekstrareiningu að ræða. Netbankinn byggir ekki á útibúum og þarf því ekki dýrt dreifinet eða mikla yfirstjórn, sem gerir okkur fært að bjóða betri kjör en hingað til hafa þekkst á íslenskum fjármálamarkaði."
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK