Mjög mismunandi er hvernig fjárfestar bera sig að við kaup á bréfum sem ekki eru skráð á markað, þ.e. bréfum í félögum á "gráa markaðinum". Fagfjárfestar og aðrir þeir sem eru að fjárfesta fyrir verulegar upphæðir, beita flóknum reikningsaðferðum og líkönum til að reikna út markaðsverðmæti viðkomandi fyrirtækis, s.s. núvirðingu framtíðarsjóðsstreymis o.fl. aðferðum. Sumir almennir fjárfestar afla sér einnig allra þeirra upplýsinga sem þörf er á til að geta tekið ákvörðun um fjárfestingu en í sumum tilfellum er þeirra upplýsinga ekki aflað og fjáfestingarákvörðun byggð á lítt marktækum orðrómi eða fortíðarávöxtun. Ljóst er að sumir fjárfestar kaupa ákveðin bréf án þess að hafa í raun hugmynd um það hvað þeir eru að kaupa. Reglulega berast einnig fréttir af aðilum t.d. í Bandaríkjunum sem eru að hagnast svo og svo mikið á því vera fyrir framan tölvuna heima í stofu og kaupa og selja hlutabréf í óskráðum bréfum, þ.e. á gráa markaðinum í Bandaríkjunum. Að sjálfsögðu birtast ekki fréttirnar um alla þá sem eru að tapa á slíkum fjárfestingum á sama tíma en þeir eru a.m.k. ekki færri.
Hverja fjárfestingarákvörðun verður að taka á grundvelli haldgóðra upplýsinga um fyrirtækið sjálft og trausti til þeirra stjórnenda sem fyrirtækið reka.
Það hefur einnig færst í vöxt að verið sé að fjármagna hlutabréfakaup með lánsfjármagni og í þeim tilfellum þarf að nást verulega góð ávöxtun til að standa undir vaxta- og lántökukostnaði. Kostnaður vegna almenns yfirdráttar á tékkareikningi er svo dæmi sé tekið 17,5% á ársgrundvelli og ljóst að ávöxtun vegna hlutabréfakaupa þarf a.m.k. að vera meiri en það til að viðkomandi fjárfesting borgi sig.
Mikilvægt er að allir fjárfestar geri sér grein fyrir þeirri áhættu sem fylgir fjárfestingu í óskráðum verðbréfum, og spyrji sig ákveðinna spurninga áður en lagt er í slíkar fjárfestingar og hafi því a.m.k. einhverja vitneskju um það hvað er verið að kaupa. Hér að neðan má sjá hluta af þeim atriðum sem mikilvægt er að fjárfestar hafi svör við áður en lagt er í slíkar áhættufjárfestingar.
Hver er varan sem fyrirtækið er að bjóða, helstu markaðir og sérstaða vörunnar? Myndi ég kaupa þessa vöru sem fyrirtækið er að þróa eða ætlar að fara að selja eða hverjir eru líklegir til að notfæra sér þjónustu viðkomandi fyrirtækis?
Hverjir eru stjórnendur fyrirtækisins og lykilstarfsmenn? Eru það aðilar sem hafa reynslu af fyrirtækjarekstri? Býður félagið starfsmönnum sínum upp á hlutabréfaívilnanir vegna vel unninna starfa? Þetta er í mörgum tilfellum mjög mikilvægt atriði því mannauðurinn skiptir oft verulegu máli, og því getur miklvæg þekking glatast hverfi lykilstarfsmenn á braut, sérstaklega í fyrirtækjum þar sem sérhæfingin skiptir miklu máli.
Hverjir eru helstu áhættuþættir í rekstri þessa fyrirtækis, reyna að spyrja þá sem þekkja til viðkomandi fyrirtækis "hvað ef" spurninga.
Eru sambærileg fyrirtæki til sem skráð eru á viðurkenndan markað, ef svo er hversu hátt eru þau metin? Það skal tekið fram að eðlilegt er að "afsláttur" sé á hlutabréfaverði, sé fyrirtækið ekki skráð á markað, ef verið er að bera það saman við eins fyrirtæki sem er skráð, 20-30% afsláttur gæti talist eðlilegur afsláttur.
Á hvaða gengi er hugsanlegt að fá viðkomandi bréf? Þar sem þessi bréf eru ekki skráð á markað birtist ekkert opinbert gengi á þeim í lok hvers viðskiptadags eins og hjá félögum sem eru t.d. skráð á Verðbréfaþing Íslands. Þess vegna getur verið gott að hringja í 2-3 verðbréfafyrirtæki til að sjá á hvaða verði þau telja sig geta útvegað bréf, eða að hringja í verðbréfamiðlara sem fólk þekkir og treystir og fá þann aðila til að útvega bréf á hagstæðasta gengi.
Stefnir félagið á skráningu á hlutabréfamarkað, innlendan eða erlendan, ef svo er, hvenær?
Eru einhverjar hömlur á meðferð hlutabréfa í félaginu, s.s. forkaupsréttur? Í sumum tilfellum er það þannig að ekki má byrja að eiga viðskipti með bréfin fyrr en að einhverjum ákveðnum tíma liðnum frá því viðskiptin eiga sér stað.
Veita kaup á hlutabréfum í viðkomandi félagi skattaafslátt?
Hvaða hluthafar eiga stærstan hlut í fyrirtækinu, hvenær komu þeir að því og á hvaða gengi? Hversu tíð eru viðskipti með hlutabréf í félaginu? Seljanleikinn skiptir miklu máli þ.e. að tiltölulega auðvelt sé að losa um bréf í félaginu.
Hvað segja sérfræðingar á hlutabréfamarkaði, um viðkomandi fyrirtæki? Er hægt að nálgast einhver gögn um fyrirtækið (gott getur verið að fletta upp í gagnasafni Morgunblaðsins til að skoða þær fréttir sem birtar hafa verið um fyrirtækið á síðustu árum).
Hef ég efni á að tapa þessum peningum sem ég er að leggja undir með þessari fjárfestingu?
Eins og áður hefur komið fram er áhætta við slíkar fjárfestingar veruleg og í sumum tilfellum er áhættan það mikil að hugsanlega gæti fyrirtækið orðið gjaldþrota og því er eðlilegt að fjárfestir spyrji sig ofangreindrar spurningar.
Að sjálfsögðu er þetta ekki tæmandi listi yfir þær spurningar sem fjárfestar verða að hafa svör við, eðli fyrirtækjanna er mismunandi og því þarf að spyrja mismunandi spurninga.
Eðlilegt er að þeir aðilar sem eiga talsvert sparifé og nokkuð stórt safn verðbréfa fjárfesti fyrir hluta af sínum eignum í óskráðum verðbréfum, þar sem hagnaðarvonin er meiri. Hins vegar verða þeir að fara varlega í slíkar fjárfestingar eins og aðrir. Þeir aðilar sem eiga ekki sparifé og ætla sér hugsanlega að fjármagna hlutabréfakaupin að öllu leyti með lánsfjármagni verða hins vegar að hugsa sig mjög vel um áður og erfitt er að ráðleggja slíkum aðilum að fara út í áhættufjárfestingar, sem fjárfestingar í fyrirtækjum á "gráa markaðinum" verða að teljast. Í þessu sambandi er einnig rétt að ítreka að ábyrgð verðbréfafyrirtækjanna, og þeirra sérfræðinga sem þar starfa, er rík þó svo að endanleg ákvörðun um fjárfestingu sé í höndum viðkomandi fjárfestis.
Eins og áður hefur komið fram hafa mörg þessara fyrirtækja margfaldað verðmæti sitt á skömmum tíma og sum hver eiga hugsanlega eftir að hækka enn frekar en rétt er að minna á að ávöxtun í fortíð þarf ekki að gefa vísbendingu um ávöxtun í framtíð.
Höfundur er framkvæmdastjóri Kaupþings Norðurlands