Innherjaviðskipti ekki til skoðunar hjá VÞÍ

STEFÁN Halldórsson, framkvæmdastjóri Verðbréfaþings Íslands, segir innherjaviðskipti starfsmanna Búnaðarbanka Íslands í tilboðshluta vegna sölu á 15% hlut ríkisins muni ekki koma til skoðunar Verðbréfaþings nema ef sýnt þyki að stjórnendur bankans hafi haft vitneskju um hver afkoma Búnaðarbankans yrði fyrir þann tíma þegar afkomuviðvörun var birt.

Verðbréfaþing Íslands hefur óskað eftir upplýsingum frá Búnaðarbankanum um hvers vegna áætlaður hagnaður bankans hafi orðið meiri á síðasta ársfjórðungi sl. árs en gert var ráð fyrir í útboðslýsingu þeirri sem gefin var út við söluna í desember. Sömuleiðis hvenær upplýsingarnar um afkomuna lágu fyrir og hverjir höfðu aðgang að þeim, að sögn Stefáns. Ákvörðunin er tekin í framhaldi af birtingu afkomuviðvörunar bankans á fimmtudegi í síðustu viku, en tímasetning hennar hefur þótt orka tvímælis með hliðsjón af því hversu stutt er síðan útboðslýsingin var gefin út. Að sögn Stefáns Pálssonar, bankastjóra Búnaðarbankans, hefur erindi VÞÍ verið svarað og væntir bankinn skjótra viðbragða við svarinu.

Hagnaður starfsmanna um 13 milljónir frá útboði

Stefán Halldórsson segir athugun þessa vera í samræmi við þær verklagsreglur sem Verðbréfaþing hafi áður beitt í málum þar sem mikilsverðar upplýsingar hafi komið fram annaðhvort á útboðstíma, eftir að útboðslýsing hefur verið birt, eða skömmu eftir að útboði lýkur.

Í tengslum við afkomuviðvörunina hefur umræða einnig farið af stað um hvort þeir starfsmenn Búnaðarbankans sem keyptu hlut í bankanum í gegnum tilboðshluta útboðsins, hafi vitað fyrirfram um hver afkoma ársins yrði og þar með stundað ólögmæt innherjaviðskipti.

Fjórir starfsmenn Búnaðarbankans keyptu hluti með þessum hætti, allt yfirmenn í bankanum. Þeir eru Árni Oddur Þórðarson, aðstoðarframkvæmdastjóri verðbréfasviðs, Andri Sveinsson, forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar verðbréfasviðs, Guðmundur Guðmundsson, forstöðumaður upplýsinga- og áhættueftirlits verðbréfasviðs, og Sigurjón Árnason, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs. Samtals nam kaupverð hlutanna um 74 milljónum króna. Ef virði þessara hluta er reiknað miðað við lokagengi bréfa bankans á föstudag kemur í ljós að fjórmenningarnir hafa samtals hagnast um tæpar 13 milljónir króna.

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu sá ástæðu til þess að gefa frá sér yfirlýsingu varðandi umrædd innherjaviðskipti í bankanum. Í henni er bent á að í útboðslýsingu hafi verið að finna yfirlýsingu frá umsjónaraðilum útboðsins þess efnis að lýsingin gæfi skýra mynd af rekstri og efnahag félagsins og að í hana vantaði engin mikilvæg atriði sem áhrif gætu haft á mat á félaginu eða hlutabréfum þess. Einkavæðingarnefnd segir tilgang slíkra ákvæða vera að tryggja að allir fjárfestar hafi aðgang að sömu upplýsingum. Til að tryggja enn frekar hlutleysi gagnvart bjóðendum hafi ákvæði verið sett í útboðslýsinguna um að bankinn eða dótturfélög hans legðu fram tilboð í þann hluta sölunnar eigi síðar en að morgni 15. desember sl. Tilgangur ákvæðisins hafi verið að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra, en öðrum tilboðsgjöfum var gert að skila tilboðum fyrir kl. 16 þann 17. desember. Farið hafi verið ofan í saumana á því með hvaða hætti þessu ákvæði var framfylgt og komið hafi í ljós að tilboð bárust frá þessum aðilum og starfsmönnum þeirra beint til nefndarinnar áður en tilboðsfrestur rann út. Segir í fréttatilkynningunni að í ljósi þessa muni einkavæðingarnefnd ekki aðhafast frekar varðandi þennan þátt málsins.

Stefán Pálsson, bankastjóri Búnaðarbankans, segir ekkert athugavert við viðskipti starfsmannanna. Reglna hafi verið gætt í hvívetna og vísar hann því til stuðnings í fréttatilkynningu einkavæðingarnefndar. Hann telur það fagnaðarefni ef starfsmenn kjósi að eignast hlut í þeim fyrirtækjum sem þeir starfi hjá. Lög séu á engan hátt brotin þó yfirmenn bankans sem aðgang hafi að trúnaðarupplýsingum kaupi þetta stóra hluti. Hafi þeir fjárhagslega burði til þess sé það þeim frjálst. Aðspurður hvort umræddir starfsmenn hefðu greitt fyrir bréfin með lánsfé frá bankanum, sagði Stefán að í einhverjum tilfellum hefðu lán verið veitt en starfsmenn fengju á engan hátt hagstæðari viðskiptakjör en aðrir viðskiptavinir bankans. Hann benti enn fremur á að kveikja málsins væru morgunfréttir Íslandsbanka F&M á föstudag, þar sem reynt hefði verið að gera Búnaðarbankann tortryggilegan í augum almennings. Hvaða hvatir væru þar að baki kvaðst Stefán ekkert vilja sagt láta.

Valur Valsson, bankastjóri Íslandsbanka, vildi ekkert tjá sig efnislega um þetta einstaka mál. Algengt væri að í morgunfréttum væri fjallað um afkomuviðvaranir einstakra félaga sem skráð væru á Verðbréfaþingi Íslands, en ávallt á faglegum nótum. Þegar Valur var inntur eftir því hvaða reglur giltu hjá Íslandsbanka varðandi viðskipti starfsmanna bankans, sagði hann að strangar siða- og verklagsreglur giltu innan bankans. Væri þeim ætlað að koma í veg fyrir hvers kyns hagsmunaárekstra sem gætu valdið tortryggni viðskiptavina bankans.

Stefán Halldórsson segir það skoðun Verðbréfaþings að fullkomlega eðlilegt sé að starfsmenn kaupi bréf á útboðstíma, þegar enginn munur er á vitneskju innherja og almennings. Þetta sé í samræmi við þá yfirlýsingu sem gefin sé í útboðslýsingum, að þar komi fram allar þær upplýsingar sem skipt geti máli við mat á bréfum og að þar vanti ekkert sem máli skipti.

Fjármálaeftirlitið er á sama máli og Verðbréfaþing hvað þetta varðar, að sögn Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra þess. Kvaðst hann telja þetta mál, varðandi afkomuviðvörun Búnaðarbankans og innherjaviðskiptin, vera forvitnilegt og að það, ásamt fleiri málum, vekti menn til umhugsunar um hvort nauðsyn væri á að endurskoða reglur um viðskipti starfsmanna lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu með hlutabréf og herða á þeim. Þá t.d. hvort kveða ætti á um að starfsmenn þyrftu að eiga hlutabréf sem þeir kaupa í ákveðinn lágmarkstíma og hvort setja þyrfti nánari ákvæði um viðskipti starfsmanna við ýmiss konar aðstæður sem upp gætu komið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK