Er bara gróði af peningum?

Atvinnurekstur á Íslandi má muna sinn fífil fegurri en nú um stundir. Laun hafa hækkað langt umfram framleiðsluaukningu og himinháir innlendir vextir og gengistöp gera það að verkum að minna en ekkert er eftir fyrir þá sem eiga fyrirtækin og bera ábyrgð á rekstrinum. Þar að auki bætist við minni eftirspurn frá fyrirtækjum og neytendum.

Margir í atvinnulífinu óttast augljóslega að mikið samdráttarskeið sé hafið og ofaní bætist verðbólga, gengislækkanir krónunnar og háir vextir. Slíkt ástand væri atvinnurekstri í landinu afar þungbært og hann myndi færast áratugi afturábak. Í fyrradag birtust nokkrar ágætar fréttir um lækkun bensínverðs, umskipti í vöruskiptajöfnuði, góða afkomu stærsta banka landsins, Íslandsbanka, og jafnframt að gengi krónunnar væri að rétta úr kútnum. Miklu hraðari umskipti í vöruskiptum benda til þess að bæði fyrirtæki og einstaklingar séu snögg að aðlaga sig breyttum aðstæðum. Ef til vill virka efnahagslögmálin jafnvel betur og hraðar hér á landi vegna smæðar og mikils upplýsingastreymis. Það er þó alltof snemmt að slá í klárinn aftur, það er við marga erfiða óvissuþætti að glíma.

Hlutur ríkisins eykst

Hirða bankarnir allan afgang?

Íslenskir fjárfestar í hlutabréfum hafa mjög mikið álit á fjármálafyrirtækjum ef markaðsvirði fyrirtækja á Verðbréfaþingi Íslands er skoðað. Heildarvirði fyrirtækjanna 15 í úrvalsvísitölunni er nú komið niður í 206,5 milljarða, en var til samanburðar u.þ.b. 260 milljarðar í febrúar 2000. Þar af eru bankarnir fjórir metnir á 88,9 milljarða, eða 43%, en hin 11 á 117,6 milljarða, eða 57%. Ef svo tryggingarfélögunum tveimur á VÞÍ, Tryggingamiðstöðinni og Sjóvá-Almennum (sem reyndar eru ekki í úrvalsvísitölunni), er bætt ofan á bankana verður verðmæti þeirra sex 116,1 milljarður.

Að hátt í helmingur verðmætis íslensks atvinnulífs sé í bönkum og tryggingum hlýtur að vekja menn til umhugsunar. Ekki endilega um að þessi ágætu fyrirtæki séu vanmetin, heldur hvort aðrar greinar eigi ekki möguleika á að hagnast eitthvað líka. Reyndar bendir góð afkoma Íslandsbanka til þess að uppistaðan í öllum hagnaði á VÞÍ í 6 mánaða uppgjörunum muni koma frá bönkum.

Hliðstæð þróun vestanhafs

Í Bandaríkjunum eru fyrirtæki í fjármálaþjónustu í ár talin munu skila um það bil 25% af hagnaði allra fyrirtækja í S&P 500 vísitölunni. Það er met en þetta hlutfall fer sívaxandi. Þá er ekki talinn með hagnaður fjármáladeilda annarra fyrirtækja. Þar má t.d. nefna að af hagnaði verðmætasta fyrirtækis heims, General Electric, skilar GE Capital 40% af heildarhagnaðinum!

Gæti verið ennþá verra

Atvinnumenn svartsýnir á bandarísk tæknifyrirtæki

Nú birtist graf sem Yngvi lét undirrituðum góðfúslega í té um 5 ára sögu NASDAQ 100 samningsins og stöðuna þar. Þessir samningar eru gífurlega mikið notaðir til spákaupmennsku og til að verja risastórar hlutabréfaeignir stofnanafjárfesta. Það sést af grafinu að atvinnufjárfestarnir veðjuðu jafnt og þétt á hækkun 100 stærstu NASDAQ-fyrirtækjanna með litlum hléum allt fram í byrjun mars 2000, en þá sneru þeir snarlega við blaðinu og fóru að beita skortstöðum til að verja sig. Hámarki virðist svartsýni þeirra hafa náð í mars í ár, en miðað við að þeir eru aftur að auka skortstöður sínar nú gæti verið áframhaldandi ólgusjór framundan á markaði fyrir tæknifyrirtæki.

Það er best að hafa allan fyrirvara á slíkum tæknilegum vangaveltum byggðum á slíkum gröfum og ekki fyllilega ljóst hvað er orsök og hvað afleiðing hækkana. Samkvæmt viðurkenndum kenningum fræðimanna eru allir markaðsaðilar nokkurn veginn jafnvitlausir eða -gáfaðir. Kenningin um skilvirka verðbréfamarkaði er reist á því. Það er þó engin spurning að vert er að fylgjast með þessari hegðun atvinnufjárfestanna og rétt að benda á að stóru tæknifyrirtækin eru ennþá hátt metin í sögulegu samhengi með tillliti til hagnaðar þeirra.

Vextir og gengisþróun

Vísitalan er 135 þegar þetta er skrifað og þeir sem kaupa varnir fram til áramóta eru þá að verja sig gegn því að hún verði a.m.k. 139 í lok ársins. Mismunurinn er kostnaður við vörnina. Á þessu hafa menn vafalaust misjafnar skoðanir og má því búast við að afar lífleg viðskipti verði á gjaldeyrismarkaði næstu vikurnar.

Á meðan vextir eru eins gríðarlega háir og raun ber vitni hér á landi eiga hlutabréf mjög erfitt uppdráttar. Til dæmis í Bandaríkjunum þar sem stýrivextir eru 3,75% eru hlutabréf fyrirtækja á V/H-hlutfallinu 20-25 afar áhugaverður kostur.

Á Íslandi þar sem millibankavextirnir eru 12% þarf V/H-hlutfallið að vera nær 10 til að vekja mikinn áhuga, nema framtíðarmöguleikar fyrirtækjanna séu þeim mun áhugaverðari.

Eyðsluklóin með afkomuviðvörun

Góða veðrið í sumar þýddi að það var engin ástæða til að þvælast til útlanda. Gamli jeppinn dugar vel, þótt hann sé 2000-árgerð og eyðsluklóin vorkennir þeim aumingjum sem höfðu ekki kjark til að kaupa sér almennilegan farkost með fellihýsi áður en allt hækkaði í verði með fallandi krónu. Í haust hljóta svo að koma feiknalegar útsölur og gullin tilboð í samkeppni við opnun Smáralindarinnar. Því er stór spurning hvort nokkur ástæða sé til að fara í innkaupaferð til útlanda. Nei, það er alltof snemmt að afskrifa blessaða eyðsluklóna, hún mun örugglega halda sér gangandi og efnahagslífinu með.

Þannig gerast kaupin á eyrinni í dag.

Höfundur er stjórnarformaður MP-verðbréfa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK