Bandaríska viðskiptatímaritið Forbes fjallar í nýjasta hefti sínu um Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, og sjö aðra vísindamenn og segir þá vera að draga læknavísindin inn í upplýsingaöldina. Segir Forbes að Kári sé að ljúka upp leyndardómum sykursýki og annarra banvænna sjúkdóma með því að rannsaka erfðaþætti heillar þjóðar.
Tímaritið segir að á þessari gullöld líffræðinnar hafi vísindamenn þróað nægtahorn nýrra lyfja, greiningaraðferða og nákvæmra sneiðmynda. En samt reiði læknisfræðin sig á það sem líkja megi við gamla Commodore 64 tölvu. Læknar fylgist oft með sjúklingum með gamaldags hætti, þ.e. blaði og penna en nú séu breytingar í vændum.
Fjallað er um Kára og Íslenska erfðagreiningu í tímaritinu. Þar segir Kári m.a. að hann vonist til að selja hugbúnað, sem verið sé að þróa innan fyrirtækisins, til sjúkrahúsa svo þau geti greint sjúklinga sína. Innan áratugar muni læknar geta búið til erfðaþáttamyndir af sjúklingum sínum og gert ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þeir fái sjúkdóma sem þeir séu líklegir að fá.