Í gær var sjósettur nýr bátur frá skipasmíðastöðinni Hydro Tech á Eiði í Færeyjum, en hann er smíðaður fyrir Sæsilfur í Mjóafirði. Þetta er fyrsti báturinn sem smíðaður er úr stáli í Færeyjum fyrir Íslendinga. Báturinn, sem er útbúinn til fóðurgjafar, verður notaður fyrir laxeldi Sæsilfurs í Mjóafirði.
Báturinn hefur hlotið nafnið Svalan og er 16 tonn, 12 metra langur og 6 metra breiður. Hann er jafnframt fyrsti sérhannaði báturinn fyrir laxeldi á Íslandi. Hann er tvíbytna, með tveimur aðalvélum sem skila hvor um sig 185 hestöflum til skrúfu.