Japanski bílaframleiðandinn Mazda Motor Corp. afhjúpaði í dag RX-8 sportbíl, eina fjöldaframleidda bílinn í heimi sem er búinn hverfihreyfli. Búist er við að RX-8 komi á markað í Bandaríkjunum og Evrópu í sumar og í Japan í maí. Verðið verður um 2,4 milljónir jena í Japan, eða sem svarar til 1,6 milljóna króna.
Vélin er búin hverflum í stað venjulegra ventla. Afl vélarinnar er hlutfallslega meira en í sambærilegum hefðbundnum bensínvélum og gangurinn er mjúkur og jafn.
Lewis Booth, forstjóri Mazda, segir að fyrirtækið ætli ekki að deila þessari tækni með öðrum bílaframleiðendum. „Þetta er stórt skref fyrir Mazda," sagði hann. „RX-8 er Mazda eins og hún gerist best."
Mazda sýndi fyrst bíl með hverfihreyfli árið 1967. Talið var að Mazda kynni að láta af áformum um að framleiða bíla með þessum hreyfli, einkum eftir að bandaríski bílaframleiðandinn Ford Motor jók hlut sinn í Mazda í 33,4% árið 1996.
Ekki er ljóst hvort hverfihreyfillinn mun ná vinsældum en keppninautar Mazda, einkum Toyota Motor Corp. og Honda Motor Co., eru að framleiða vetnisbíla sem valda ekki mengun. Einnig eru framleiddir bílar sem ganga bæði fyrir rafmagni og venjulegu bensíni.
Þegar hafa 5 þúsund RX-8 bílar verið pantaðir gegnum Netið í Japan. Mazda áætlar að selja um 60 þúsund slíka bíla á ári, þar af um helminginn í Bandaríkjunum.