Alls bárust 14 óbindandi tilboð í hlutabréf ríkisins í Landssíma Íslands hf.en skilafrestur rann út í gær. Að sögn framkvæmdanefndar um einkavæðingu standa 37 fjárfestar, innlendir og erlendir, að baki tilboðanna. Næstu daga mun framkvæmdanefnd um einkavæðingu, í samvinnu við fjármála- og ráðgjafafyrirtækið Morgan Stanley, yfirfara tilboðin.
Í tilkynningu frá einkavæðingarnefnd segir, að við mat á óbindandi tilboðum verði meðal annars horft til verðs, fjárhagslegs styrks og lýsingar á fjármögnun, reynslu af rekstri fyrirtækja, hugmynda og framtíðarsýn varðandi rekstur Símans, starfsmannastefnu og þjónustu í þéttbýli og dreifbýli næstu fimm árin, svo og sjónarmiða bjóðenda hvað varðar markmið ríkisins með sölunni. Heildstætt mat verði lagt á alla þessa þætti og verða nöfn bjóðenda gefin upp að því loknu, eða innan viku.
Að lokinni yfirferð óbindandi tilboða verður þeim sem uppfylla almennar kröfur og skilyrði boðið að fá frekari upplýsingar um Símann í gegnum kynningar, heimsóknir og áreiðanleikakannanir. Á grundvelli þeirra athugana geta aðilar gert bindandi tilboð. Í söluferlinu er gert ráð fyrir þeim möguleika að áhugasamir minnihlutaaðilar, sem ekki skiluðu inn óbindandi tilboðum, geti, að undirrituðum trúnaðarsamningi, tengst hópi kjölfestufjárfesta.
Minnst tveimur vikum áður en bindandi tilboð verða lögð fram þurfa bjóðendur þó að hafa myndað hópa kjölfestufjárfesta, og þurfa þeir aðilar sem ekki voru valdir til síðara ferlis á grundvelli óbindandi tilboða að fallast á framtíðarsýn og leiðir til að uppfylla markmið ríkisins er tilgreindar voru í óbindandi tilboðum þess/þeirra kjölfestufjárfesta, sem mynda meirihluta hóps og valdir voru á grundvelli mats á óbindandi tilboðum. Reglur þessar voru kynntar bjóðendum á fyrra stigi söluferlis.
Við mat á bindandi kauptilboðum verður aðeins litið til verðs og verður gengið til viðræðna við hæstbjóðendur. Til að tryggja algert gagnsæi hyggst framkvæmdanefnd um einkavæðingu opna þau bindandi tilboð sem berast í viðurvist allra bjóðenda og fjölmiðla. Verði aðeins 5%, eða minni, verðmunur á tilboðum hæstu bjóðenda verður viðkomandi aðilum gefinn kostur á að skila inn nýju og hærra verðtilboði síðar sama dag. Verða tilboðin opnuð á ný í viðurvist bjóðenda og fjölmiðla síðar sama dag. Berist ekki ný tilboð frá bjóðendum standa upphafleg tilboð.