Heildareignir Exista nema um 90 milljörðum króna

Exista ehf., sem nú verður kjölfestufjárfestir í Símanum með 45% hlut, er fjárfestingarfélag í meirihlutaeigu Bakkabræðra Holding, eignarhaldsfélagi bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona. Heildareignir Exista nema um 90 milljörðum króna og er félagið stærsti hluthafinn í Kaupþingi banka, Bakkavör Group og Flögu Group.

Í tilkynningu, sem Exista sendi frá sér eftir að ljóst var að tilboði Skiptis ehf. í Símann hefði verið tekið, segir að kaupin muni tryggja aðkomu stórs hluta landsmanna í gegnum eign þeirra í lífeyrissjóðunum. Exista verði kjölfestufjárfestir með 45% hlut og fjórir lífeyrissjóðir, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi-lífeyrissjóður, Sameinaði lífeyrissjóðurinn og Samvinnulífeyrissjóðurinn, muni samtals eignast 21% hlut. Einnig eiga aðild að Skipti Kaupþing banki með 30% hlut, MP fjárfestingarbanki og Imis sem er í eigu Skúla Þorvaldssonar. Fram kemur að Fjármögnun kaupana hafi verið að fullu tryggð.

Í tilkynningunni segir, að þátttaka lífeyrissjóða tryggi aðkomu stórs hluta landsmanna að kaupunum auk þess sem fyrirhugað sé að skrá félagið á Aðallista Kauphallar Íslands í síðasta lagi fyrir árslok 2007. Samfara skráningunni verði hlutur Kaupþings banka boðinn almenningi og fagfjárfestum til kaups. Með kaupum fjárfestahópsins á Símanum verði það jafnframt tryggt að Síminn eigi áfram öflugan bakhjarl sem standa mun vörð um fyrirtækið.

„Kaupendur Símans bera fyllsta traust til stjórnenda og starfsmanna Símans. Þeim er það ljóst að starfsmenn Símans eru undirstaða góðs rekstrarárangurs síðustu ára. Markmið nýrra eigenda er að tryggja áfram framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini og enn frekari sókn Símans á fjarskiptamarkaði," segir síðan í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK