Tilboði Skiptis í Símann tekið

Fulltrúar Skiptis sem átti hæsta tilboðið í Símann.
Fulltrúar Skiptis sem átti hæsta tilboðið í Símann. mbl.is/GSH

Tilboðin þrjú, sem bárust í hlut ríkisins í Símanum, voru öll gild og gögn sem þeim fylgdu voru fullnægjandi. Jón Sveinsson, formaður einkavæðingarnefndar segir að nefndin hafi rætt við Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, sem fer með hlut ríkisins í Símanum, og Geir hafi í samráði við samráði við ráðherranefnd um einkavæðingu fallist á tillögu einkavæðingarnefndar um að tilboði frá Skipti ehf., upp á 66,7 milljarða króna, verði tekið. Gert er ráð fyrir að kaupsamningur verði undirritaður í næstu viku.

Jón sagði, að þær fjárhæðir, sem um væri að ræða, væru vel viðunandi, einkum í ljósi verðmats, sem gert var árið 2001 þegar fyrst stóð til að selja Símann, og þess að 6,3 milljarðar voru teknir út úr fyrirtækinu sem arður í þágu hluthafanna. Í umræðunni hefðu verið nefndar tölur frá 40 til 70 milljarða en þær tölur væru ekki komnar frá einkavæðingarnefnd.

Exista ehf., fjárfestingarfélag í eigu Bakkabræðra holding, KB banka og nokkurra sparisjóða, er stærsti aðilinn í Skipti með 45% hlut. Kaupþing banki er með 30% hlut, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi - lífeyrissjóður, eru með 8,25% hlut hvor, Sameinaði lífeyrissjóðurinn og Samvinnulífeyrissjóðurinn eru með 2,25% hlut, og Imis ehf., félag í eigu Skúla Þorvaldssonar, og MP Fjárfestingarbanki eru með 2% hlut hvor.

Erlendur Hjaltason, framkvæmdastjóri Exista, sagði við Fréttavef Morgunblaðsins, að hann væri mjög sáttur við þessa niðurstöðu. „Þetta er gott fyrirtæki með mikla framtíðarmöguleika. Við gáfum þetta tilboð miðað við þá útreikninga sem gerðir voru og við erum sáttir við niðurstöðuna."

Þegar Erlendur var spurður hvort hannn byggist við að aðrir aðilar að tilboðinu áformi að eiga hlut í Símanum til frambúðar sagði hann, að allir í þessum hópi væru áhugasamir um að vera kjölfestufjárfestar áfram í Símanum en það yrði síðan að koma í ljós eftir að Síminn yrði settur á markað.

Um það hvaða áætlanir Exista hefði um Símann sagði Erlendur að ekki væri hægt að ræða það nánar fyrr en kaupendur væru komnir að borðinu og farnir að reka fyrirtækið sjálfir.

Jón Sveinsson sagði, að kaupsamningur lægi nánast fyrir í grundvallaratriðum. Bjóðendur hefðu skilað inn drögum að kaupsamningi í gær og gert væri ráð fyrir að skrifað yrði undir hann á föstudaginn í næstu viku í Þjóðmenningarhúsinu klukkan 15. Samhliða því gerðu lög um samkeppniseftirlit ráð fyrir því að kaupendur verði að skila til samkeppnisyfirvalda tilkynningu um kaupin. Samkeppniseftirlitið tekur það síðan til sérstakrar skoðunar. Jón sagði að einkavæðingarnefnd hefði raunar tekið þetta til sérstakrar skoðunar og teldi ekki ástæðu til að ætla að þetta tefji málið mikið.

Hin endanlega greiðsla og afhending hlutarins fer síðan fram eftir að niðurstaða samkeppniseftirlitsins liggur fyrir, en Jón sagði að einkavæðingarnefnd teldi að sú niðurstaða ætti að geta legið fyrir síðari hluta ágústmánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka