Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir því í nýrri þjóðhagsspá fyrir árin 2005-2010, að hagvöxtur í ár verði 6% en að hægi á hagvexti árið 2006 vegna þess að þá dragi úr vexti einkaneyslunnar og verg landsframleiðsla aukist það ár um 4,6% að magni. Árið 2007, þegar dregur hratt úr stóriðjuframkvæmdum og innlendri eftirspurn, verði hagvöxtur 2,5% og verði síðan svipaður út áratuginn.
Hagvaxtarspáin er nokkuð ólík hagspá Seðlabankans, en í Peningamálum bankans, sem birtust í síðustu viku, var gert ráð fyrir 6,7% hagvexti á þessu ári, 6% hagvexti árið 2006 og 4,8% hagvexti árið 2007.
Fjármálaráðuneytið segir, að óhjákvæmileg afleiðing umfangsmikilla stóriðjuframkvæmda og aukinnar einkaneyslu heimilanna sé vaxandi viðskiptahalli sem spáð er að nái hámarki í ár og verði 13,3% af landsframleiðslu og rúm 12% á næsta ári. Með auknum álútflutningi og samdrætti í innflutningi muni viðsnúningur í utanríkisviðskiptum einkenna hagvöxtinn árið 2007. Í langtímaspá ráðuneytisins er síðan gert ráð fyrir því að viðskiptahallinn dragist hratt saman með minnkandi stóriðjuframkvæmdum og að hann verði um 2,5% af landsframleiðslu árið 2008-2010.
Ráðuneytið spáir því að verðbólga milli ára verði 3,9% á þessu ári. Búist sé við því að gengi krónunnar og fasteignaverð hafi náð hámarki og að gengi krónunnar lækki árið 2006. Er því spáð að verðbólga verði 3,8% á næsta ári og 4% árið 2007 en þá er ekki miðað við að launaliðir kjarasamninga taki breytingum.
Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi verði um 1,8% á næsta ári. Framleiðsluspenna í hagkerfinu muni hins vegar minnka hratt þegar helstu framkvæmdirnar verða gengnar yfir og er því spáð að atvinnuleysi aukist þá á ný.
Fjármálaráðuneytið segir, að helstu óvissuþættir í spánni varði frekari stóriðjuframkvæmdir og þróun á gengi krónunnar. Þrátt fyrir háa skuldastöðu heimilanna og fyrirtækja sé staða ríkissjóðs með eindæmum góð og eignir landsmanna hafi aukist mikið. Þá séu innviður hagkerfisins traustir og sveigjanleiki þess mikill.