Spáir að dragi úr vexti einkaneyslu á næsta ári

Hagvöxtur árin 2000 til 2010 samkvæmt þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins.
Hagvöxtur árin 2000 til 2010 samkvæmt þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins. mbl.is/KG

Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir því í nýrri þjóðhagsspá fyrir árin 2005-2010, að hagvöxtur í ár verði 6% en að hægi á hagvexti árið 2006 vegna þess að þá dragi úr vexti einkaneyslunnar og verg landsframleiðsla aukist það ár um 4,6% að magni. Árið 2007, þegar dregur hratt úr stóriðjuframkvæmdum og innlendri eftirspurn, verði hagvöxtur 2,5% og verði síðan svipaður út áratuginn.

Hagvaxtarspáin er nokkuð ólík hagspá Seðlabankans, en í Peningamálum bankans, sem birtust í síðustu viku, var gert ráð fyrir 6,7% hagvexti á þessu ári, 6% hagvexti árið 2006 og 4,8% hagvexti árið 2007.

Fjármálaráðuneytið segir, að óhjákvæmileg afleiðing umfangsmikilla stóriðjuframkvæmda og aukinnar einkaneyslu heimilanna sé vaxandi viðskiptahalli sem spáð er að nái hámarki í ár og verði 13,3% af landsframleiðslu og rúm 12% á næsta ári. Með auknum álútflutningi og samdrætti í innflutningi muni viðsnúningur í utanríkisviðskiptum einkenna hagvöxtinn árið 2007. Í langtímaspá ráðuneytisins er síðan gert ráð fyrir því að viðskiptahallinn dragist hratt saman með minnkandi stóriðjuframkvæmdum og að hann verði um 2,5% af landsframleiðslu árið 2008-2010.

Ráðuneytið spáir því að verðbólga milli ára verði 3,9% á þessu ári. Búist sé við því að gengi krónunnar og fasteignaverð hafi náð hámarki og að gengi krónunnar lækki árið 2006. Er því spáð að verðbólga verði 3,8% á næsta ári og 4% árið 2007 en þá er ekki miðað við að launaliðir kjarasamninga taki breytingum.

Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi verði um 1,8% á næsta ári. Framleiðsluspenna í hagkerfinu muni hins vegar minnka hratt þegar helstu framkvæmdirnar verða gengnar yfir og er því spáð að atvinnuleysi aukist þá á ný.

Fjármálaráðuneytið segir, að helstu óvissuþættir í spánni varði frekari stóriðjuframkvæmdir og þróun á gengi krónunnar. Þrátt fyrir háa skuldastöðu heimilanna og fyrirtækja sé staða ríkissjóðs með eindæmum góð og eignir landsmanna hafi aukist mikið. Þá séu innviður hagkerfisins traustir og sveigjanleiki þess mikill.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka