Greining Íslandsbanka segir, að ráða megi af fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2006, sem lagt var fram í gær, að aðhald ríkisfjármála verði áfram lítið og hagstjórn að mestu leyti á herðum Seðlabankans. Samkvæmt frumvarpinu verður ríkissjóður rekinn með 14,2 milljarða króna tekjuafgangi á næsta ári.
Í Morgunkorni Íslandsbanka segir, að tekjur ríkissjóðs hafi aukist hratt undanfarið, ekki síst vegna mikillar neyslu landans sem skili miklum virðisaukaskatti og vörugjöldum í ríkiskassann. Í slíku árferði komi ekki á óvart þótt afgangur verði af rekstri ríkissjóðs. Því sé vafasamt að benda á stöðu ríkiskassans og horfur í næstu framtíð sem vísbendingu um aukið aðhald. Ýmsir sjálfvirkir þættir séu að verki, sem tengi afkomu ríkissjóðs við hagsveifluna. Auk tekna af veltusköttum lækki bótagreiðslur í góðæri og tekjuskattar hækki með launahækkunum almennings. Þegar verr ári í hagkerfinu eigi hið gagnstæða sér stað og þá geti staða ríkissjóðs versnað býsna hratt.
„Skattalækkanir án samsvarandi niðurskurðar á útgjöldum eru óheppilegar á þenslutímum þar sem þær auka við neyslu almennings og draga úr því svigrúmi sem ríkið annars hefur til slíkra lækkana og/eða aukningar í framkvæmdum þegar gefa fer á bátinn efnahagslega. Væri ríkisstjórninni verulega í mun að beita ríkisfjármálum til þess að mýkja hagsveifluna myndi fara betur á því að bæði yrði beitt tekju- og útgjaldahlið ríkisfjármálanna í því skyni, en ekki aðeins haldið í við útgjaldahliðina. Aðhald það sem birtist í útgjaldahlið frumvarps til fjárlaga mun að líkum ekki duga til þess að draga úr ójafnvægi í hagkerfinu svo neinu nemi, og fyrir bragðið er útlit fyrir að Seðlabankinn finni sig knúinn til að auka aðhald peningamála enn frekar á næstunni," segir síðan í Morgunkorni.
Þar er hagspá fjármálaráðuneytisins, sem birt var í gær, einnig gagnrýnd, og sagt að afar hæpið sé að reikna með því að lending hagkerfisins eftir uppsveifluna verði jafn mjúk og þar sé gert ráð fyrir.