Jón Karl: Höfnum hugmyndum um aukið regluverk stjórnvalda

Bogi Pálsson, ráðstefnustjóri, Jón Karl Ólafsson, formaður stjórnar VIðskiptaráðs Íslands …
Bogi Pálsson, ráðstefnustjóri, Jón Karl Ólafsson, formaður stjórnar VIðskiptaráðs Íslands og Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra. Brynjar Gauti

Forvígismenn fyrirtækja eiga að axla samfélagslega ábyrgð, að sögn Jóns Karls Ólafssonar, formanns stjórnar Viðskiptaráðs Íslands. „Ég vil hafna hugmyndum um aukið og íþyngjandi regluverk stjórnvalda og kalla eftir breiðri samstöðu viðskiptalífsins um sjálfsprottnar reglur. Það er undir okkur komið að virða þessar reglur í hvívetna og sýna fram á það og sanna að viðskiptalífinu er fullkomlega treystandi til að starfa innan þess ramma, sem samstaða er um." Þetta kom fram í erindi Jóns Karls á Viðskiptaþingi 2006 sem nú stendur yfir á Nordica hóteli.

Segir Jón Karl að þrátt fyrir bætt viðskiptalíf og aukna tækni hafi regluverk viðskiptalífs og fjármagnsmarkaðar aldrei verið flóknara og viðameira.

„Aukin tækni og framþróun virðist hafa einfaldað margt í lífi manna - nema reglurnar sem þeir búa við! Fyrirfram hefði mátt ætla, að aukin framþróun sem einfaldar líf og viðskipti myndi einnig einfalda lög og reglur, en reynslan hefur verið þveröfug. Umræður um þörf á frekari reglum og lögum fæðast eftir nánast hverja hreyfingu sem á sér stað í viðskiptalífinu.

Árið 2003 tóku Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins og Kauphöll Íslands sig saman og gáfu út „Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja”. Var tilgangur útgáfunnar að hvetja íslenskt viðskiptalíf til þess að taka upp samræmd vinnubrögð í tilteknum málum, en um leið var lögð á það áhersla að reglur um stjórnarhætti þurfa að taka tillit til ólíkra og misstórra fyrirtækja. Var það mat okkar að viðskiptalífið væri betur í stakk búið en löggjafinn til að setja fram slíkar reglur. Í leiðbeiningunum er fylgt svokallaðri „fylgið eða skýrið“ reglu. Felur hún það í sér að leiðbeiningarnar eru ekki bindandi, en þess í stað er farið fram á, að fyrirtæki greini frá því í ársreikningi ef ekki er farið eftir þessum leiðbeiningunum, í hverju slíkt frávik felst og hver sé ástæða fráviks. Samkvæmt reglum Kauphallarinnar, er markaðsaðilum skylt, að taka tillit til leiðbeininganna. Þær geta einnig að efni sínu átt vel við önnur félög og hafa mörg stærri félög, sem ekki eru á markaði, ákveðið að fylgja leiðbeiningunum.

Komin er tveggja ára reynsla á leiðbeiningar um stjórnarhætti og við endurskoðun þeirra í desember síðastliðnum var það mat manna að reynslan af þeim hafi verið almennt nokkuð góð. Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja hafa því sannað gildi sitt. Trúlega eru mikilvægust þau áhrif, sem leiðbeiningarnar hafa haft á umræðu um stjórnarhætti í viðskiptalífinu. Þeirri umræðu er hins vegar fráleitt lokið og leiðbeiningar munu þróast í takt við niðurstöðu þessarar umræðu. Í því liggur styrkur frumkvæðis atvinnulífsins sjálfs, ólíkt opinberu regluverki sem ekki verður haggað svo auðveldlega," að sögn Jóns Karls.

Markmið eiga að vera háleit en raunhæf

Íslenskt viðskiptalíf er á mikill ferð í átt til frjálsari og skilvirkari viðskiptahátta, að sögn formanns stjórnar Viðskiptaráðs Íslands.

„Markmið vinnunnar fyrir Viðskiptaþing var, að varða þessa leið með því að setja okkur markmið um það hvert við viljum stefna og hvar við viljum helst vera stödd árið 2015. Markmið okkar eiga að vera háleit — en raunhæf — og vonir okkar eru, að þessi markmið náist, ef við leggjumst öll á eitt og stefnum í sömu átt. Ég kalla því eftir breiðri samstöðu viðskiptalífs, stjórnmála, háskóla og stofnanna um að einfalda Ísland, gera það skilvirkara, í því augnamiði að elta uppi aðrar forystuþjóðir og taka fram úr þeim. Við eigum að fagna fjölbreytni og nýta okkur reynslu einstaklinga með ólíkan bakgrunn, enda nálgast menn viðfangsefni sín með ólíkum hætti. Breið samstaða milli okkar allra er til þess fallin, að tryggja að heildin verði alltaf stærri summu liðanna," að sögn Jóns Karls.

Segir hann að það séu að sjálfsögðu mörg atriði sem hafa haft áhrif á þessu þróun, sem hér hefur verið undanfarin ár. „Stækkandi hlutfall vinnuafls okkar starfar nú í raun á alþjóðavettvangi. Sú staða gerir fólki kleift að líta til heimalandsins úr fjarlægð og sjá þannig, hvað megi betur fara og hvað er betur gert hér á landi en annars staðar. Það kom skýrt fram í vinnu framtíðarhóps Viðskiptaráðsins, að fundarmenn láta sig framtíð Íslands miklu varða og stefnumörkun til framtíðar á alls ekki að vera einkamál stjórnmálamanna.

Innleiðing EES-samningsins hefur haft mjög mikil og ráðandi áhrif á starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja. Að sama skapi má slá því föstu að skattalækkanir á fyrirtæki hér á landi úr 30 í 18 prósent, voru sennilega bestu og árangursríkustu aðgerðir stjórnvalda í seinni tíð. Með aðgerðinni sýndu stjórnvöld þá víðsýni og stefnufestu, sem nauðsynleg er til að betrumbæta rekstrarumhverfi fyrirtækja í landinu og bæta þannig samkeppnisstöðu þeirra, sértaklega á alþjóðavettvangi.

Sú bylting, sem átt hefur sér stað á flestum sviðum íslensks samfélags, er ekki sjálfsögð og því síður er sjálfgefið, að hún muni halda áfram ef ekki er hugað að framtíðinni í tíma. Áherslur í atvinnulífinu, á sviði menntamála, heilbrigðismála, ríkisfjármála, menningar og í hagkerfinu í heild þurfa að liggja fyrir — og við eigum að setja okkur metnaðarfull markmið til framtíðar. Góð varða á þeirri vegferð er að breyta Íslandi ársins 2015 í þjónustusamfélag af ýmsum toga, sama hvort litið er til iðngreina, fjármálaþjónustu, heilbrigðismála, ferðaþjónustu eða menntamála.

Aðlögunarhæfni lítils samfélags er mikil og stuttar boðleiðir ættu að tryggja að breytingar til batnaðar nái fram að ganga á snöggan og skilvirkan máta. Að sama skapi falla hugmyndir ríkisstjórnarinnar um einfaldara Ísland, endurskoðun landbúnaðarkerfisins og Ísland sem alþjóðlega miðstöð fjármála vel að þeim þáttum sem auka samkeppnishæfi landsins í alþjóðlegu samhengi.

Viðskiptaráð hefur sett sér það markmið, að láta ekkert afskipt í samfélaginu og reyna að tryggja, að góðar hugmyndir hljóti brautargengi, hvaðan sem þær koma — enda skiptir í raun engu máli hvaðan gott kemur. Aðalatriðið er að fá sem flesta aðila til þessarar vinnu og setja markið hátt og halda stefnu í gegnum súrt og sætt. Við erum tilbúin í að koma að því að rugga bátnum eins og þarf — og við hvetjum aðra til að gera slíkt hið sama," að sögn Jóns Karls Ólafssonar, á Viðskiptaþingi 2006.

Mikilvægt að ráðuneyti verði sameinuð

Mikill vöxtur hefur verið hér í opinberu stjórnkerfinu á síðustu árum og það er mjög mikilvægt, að fara að vinna að því að sameina ráðuneyti í auknum mæli og leitast þannig við, að ná fram sömu hagræðingu í rekstri opinberra stofnanna og náðst hefur hér á samkeppnismarkaði, að sögn Jóns Karls.

„Að sama skapi ber sífellt að leita leiða, til að færa verkefni frá opinberum stofnunum til einkaaðila. Ég held að við getum öll tekið undir það að hagræðing í efsta lagi stjórnsýslunnar verði öðrum stofnunum hins opinbera góður hvati til að draga úr umsvifum sínum - það er nú einu sinni þekkt staðreynd, að eftir höfðinu dansa jú limirnir.

Stefnufesta stjórnvalda í þróun íslensks atvinnulífs til ársins 2015 er mikilvægur þáttur á vegferð til umbreytingar íslensks samfélags í þjónustusamfélag á heimsmælikvarða. Að sama skapi verður að líta til þess, að Ísland er agnarsmátt í alþjóðlegu samhengi - hvort sem litið er til fjármála eða þjónustumarkaða og örlítil hlutdeildaraukning íslenskra fyrirtækja á alþjóðlegum markaði hefur ráðandi áhrif á þjóðarbúið. Í ljósi aukinnar alþjóðavæðingar mun hlutdeild fjármála- og þjónustuviðskipta halda áfram að aukast í íslensku þjóðarbúi til ársins 2015. Á Íslandi er einstakt tækifæri til uppbyggingar á fjármála- og þjónustuviðskiptum á næsta áratug. Við eigum að grípa tækifærið enda er ekki víst að það gefist á nýjan leik," segir Jón Karl.

Stjórnvöld eiga að fylgjast með umbótum á alþjóðlegum markaði

Á síðustu fimm árum hafa Danir, Svíar, Hollendingar, Belgar, Ástralir og Írar komið á víðtækum umbótum á skattkerfi og rekstarumhverfi fyrirtækja, með það fyrir augum að laða til landanna aukna starfsemi á sviði alþjóðlegra fjármála.

„Þjóðirnar hafa gengið mis langt í umbótunum, en íslensk stjórnvöld eiga að setja sér það metnaðarfulla markmið, að fylgjast vel með þessari þróun og ná um það breiðri sátt að ganga helst aldrei skemur en viðmiðunarþjóðir okkar þegar kemur að umbótum í stjórnsýslunni. Við eigum og verðum að hafa hraðar hendur í þessum efnum, enda er til mikils að vinna. Við eigum að stefna að því að draga vagninn í alþjóðlegu samhengi, í stað þess að sigla aðeins í kjölfar annarra þjóða.

Uppbygging landsins sem miðstöðvar fjármála og þjónustu krefst þess að löggjöf um rekstur fyrirtækja verði eins og best verður á kosið og í skattamálum dugar ekkert hálfkák. Íslensk fyrirtæki verða að standa a.m.k. jafnvígis eða betur okkar helstu erlendu samkeppnisaðilum á sem flestum sviðum," að sögn Jóns Karls.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK