Að sögn Pálma var meginástæðan sú að honum var boðið að fjárfesta í Iceland-verkefninu á Bretlandi og söluféð notaði hann síðan til þess að fjárfesta í Iceland-keðjunni.
"Það er mjög sérstakt að í dag [í gær] var einmitt verið að greiða út 100% arð í Iceland þannig að það fé sem ég lagði í Iceland hef ég nú fengið til baka. Ég hafði frumkvæði að því að óska eftir að kaupa Skeljung og niðurstaðan varð sú að við gengum frá samningum í dag [í gær] þar sem við keyptum Skeljung aftur út úr Högum auk þess sem allur rekstur stöðvanna verður fluttur aftur inn í Skeljung - það var búið að flytja hann út úr Skeljungi. Nú er þetta sem sagt bara gamli góði Skeljungur," segir Pálmi.
Hann viðurkennir að Fons komi ekki beinlínis illa út úr þessum viðskiptum - félagið eigi eftir sem áður hlut sinn í Iceland-keðjunni en hafi nú jafnframt eignast Skeljung aftur.
Pálmi segir að burtséð frá því að stöðvarnar komi aftur inn í rekstur Skeljungs verði nánast allt óbreytt og Gunnar Karl Guðmundsson verði áfram forstjóri félagsins.