Flökt á gengi krónunnar

Mikil gengishækkun krónunnar einkenndi fyrri hluta vikunnar, en hana má einkum rekja til spámennsku í tengslum við tvo tengda þætti. Annars vegar til væntra tíðinda af frekari uppbyggingu stóriðju, en þau tíðindi bárust í gær og reyndust í takti við spár. Hins vegar má rekja gengishækkunina til þeirrar staðreyndar að útgáfa krónubréfa hófst á nýjan leik og virðist því ekki hafa verið barin niður af gríðarlegu gengisflökti í síðustu viku. Útgefendur krónubréfa og kaupendur þeirra veðja áfram á að gengi krónunnar verði sterkt á næstu árum og horfa ekki síst til fyrirhugaðra stóriðjuframkvæmda skoðun sinni til rökstuðnings. Gengishækkun síðustu daga hefur þó sennilega verið meiri en efni stóð til og hefur gengi krónu gefið talsvert eftir í viðskiptum í morgun, að því er segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Íslensk stjórnvöld og Alcoa undirrituðu í gær samkomulag um ítarlega könnun á hagkvæmni þess að reisa 250 þús. tonna álver á Bakka við Húsavík. Raunar vilja Alcoa-menn að slíkt álver verði á endanum af svipaðri stærðargráðu og álverið í Reyðarfirði (340 þ.tonn/ár) ef hægt er að afla nægrar orku. Táknar samkomulagið auknar líkur á að af þessari framkvæmd verði þótt margt sé óunnið í þessum efnum.

„Ljóst virðist að mikið verður um framkvæmdir á næstu árum þótt ekki verði ráðist í nema hluta þeirra framkvæmda sem eru á teikniborði álfyrirtækja og stjórnvalda um þessar mundir. Tíðindi sem gera frekari uppbyggingu áliðnaðar hér á landi á næstu árum líklegri auka um leið líkurnar á hærri stýrivöxtum en ella og styðja þar með við gengi krónunnar. Álverð er mjög hátt um þessar mundir og álfyrirtæki leggja því mikið kapp á aukna framleiðslu þar sem ódýr orka er á boðstólum. Stækkun álversins í Straumsvík virðist mjög líkleg á næstu árum og sífellt sennilegra virðist að af byggingu álvers á Norðurlandi verði þótt nokkur ár séu í að framkvæmdir myndu hefjast. Hugmyndir manna um byggingu álvers í Helguvík virðast hins vegar núna afar ólíklegar til að ganga eftir á næstu árum," að því er segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK