Þóra Hallgrímsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri tjónasviðs hjá Sjóvá sem er eitt af viðamestu sviðum félagsins. Hlutverk tjónasviðs Sjóvá er fyrst og fremst að veita þjónustu vegna afgreiðslu tjóna. Hvern vinnudag ársins 2005 greiddi Sjóvá út að meðaltali um 25 milljónir króna vegna tjóna. Framkvæmdastjóri tjónasviðs ber ábyrgð á rekstri þess, hefur yfirumsjón með ákvörðunum um bótaskyldu og stýrir þjónustu við viðskiptavini vegna afgreiðslu tjóna. Tjónasvið Sjóvá hefur einnig umsjón með forvarnarstarfi félagsins.
Þóra Hallgrímsdóttir er fædd 12. apríl 1974. Hún lauk kandídatsprófi í lögfræði við Háskóla Íslands árið 2000 og öðlaðist réttindi til að vera héraðsdómslögmaður árið 2002. Þóra starfaði sem lögfræðingur hjá Tryggingamiðstöðinni hf. á árunum 2000-2005. Þóra hefur starfað hjá Sjóvá frá því í febrúar 2005 og sinnti þar lögfræðiþjónustu áður en hún tók við starfi framkvæmdastjóra tjónasviðs.