Krónan gæti haft áhrif á húsnæðisverð í Bretlandi

"Kannski er hún aðeins lítil og köld eyja norður við heimskautsbaug, þar sem fiskur er aðalútflutningsvaran og íbúarnir ekki nema 300 þúsund, en hún gæti rýrt verðmæti húseignar þinnar og hlutabréfa," skrifar blaðamaðurinn Ashley Seager hjá Guardian, í grein sem birtist undir fyrirsögninni "Heitir peningar á flótta undan köldu loftslagi gætu þýtt mikið frost".

Í greininni er sagt að ástand íslenska hagskerfisins, sem endurspeglaðist í vaxtahækkun Seðlabanka Íslands í síðustu viku, gæti verið vísbending um að vandræði séu í uppsiglingu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Tekið er fram að Ísland sé svo lítið að hagkerfum heimsins stafi ekki alvarleg ógn af erfiðleikum þar.

"Það er hins vegar mögulegt að Ísland sé aðeins toppurinn á ísjakanum og verði fyrsti dómínókubburinn til að falla, þótt lítill sé," er haft eftir Julian Jessop, alþjóðahagfræðingi hjá ráðgjafarfyrirtækinu Capital Economics í London.

Greinarhöfundur drepur þá á ýmsum merkjum um ofhitnun í íslenska hagkerfinu; miklum hagvexti og skuldasöfnun og vaxandi verðbólgu. Þessi hraði vöxtur hagkerfisins hafi laðað til sín svokallaða vaxtamunarfjárfesta, sem taki lán á lágum vöxtum í Evrópu eða Japan og fjárfesti svo aftur hér, þar sem vextir séu háir.

"Fjármálamarkaðir heimsins hafa undanfarin ár almennt einkennst af stöðnun en það hefur valdið því að margir fjárfestar hafa vanmetið ýmsa áhættuna á þessum mörkuðum," er skrifað. Þá bendir höfundurinn á að Seðlabanki Englands hafi síðustu tvö ár varað við því að lágir vextir hvarvetna í heiminum yllu því að margir fjárfestar leituðu óæskilegra leiða til að ná fram ávöxtun á fé sitt.

Vandi Seðlabankans

Í dag hafi hins vegar seðlabankar í Evrópu, Bandaríkjunum og Japan allir gefið út að aðhaldsaðgerðir og vaxtahækkanir séu fram undan. Að mati greinarhöfundar er þetta merki um að það tímabil ódýrs fjármagns, sem ríkt hafi undanfarin fimm ár, sé nú að enda.

"Þetta þýðir að vaxtamunarviðskipti eru ekki eins aðlaðandi og áður, og sumir fjárfestar eru farnir að losa sig við áhættusömustu fjárfestingar sínar, t.d. á Íslandi." Þetta hafi skapað þrýsting á veikingu krónunnar og vandamál íslenska seðlabankans sé nú að koma í veg fyrir að fall gjaldmiðilsins leiði hagkerfið í kreppu.

"Það yrði mjög erfitt fyrir Íslendinga en gæti einnig haft önnur vandamál í för með sér," skrifar Seager. Ef fjárfestar losi um vaxtamunarfjárfestingar sínar, gætu vextir skuldabréfa hækkað mikið, sem aftur hefði þau áhrif að verð á eignum eins og húsnæði og hlutabréfum gæti lækkað. "Það undarlega við þetta er að Ísland gæti hrint af stað snarpri lækkun á breska húsnæðismarkaðinum," segir Jessop.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK