Ísland að bráðna?

Loftmyndir

Greinar um efnahagsástandið á Íslandi halda áfram að birtast í breskum blöðum. Í dag birtist löng grein í skoska blaðinu Sunday Herald undir fyrirsögninni: Ísland að bráðna, en þar er m.a. rætt við Carsten Valgreen, aðalhagfræðing Danske Bank og hann sagður vera sá sem benti á að íslenska hagkerfið, sem um tíma virtist standa sig best í Evrópu, væri í raun nakið.

Í greininni, sem er eftir Matthew Magee, segir að Carsten Valgreen hafi aldrei upplifað það áður að ráðherrar, seðlabankastjóra og frægir kaupsýslumenn væru skyndilega orðnir helstu óvinir hans. „Þetta var ótrúlegt," er haft eftir Valgreen. „Þeir réðust á mig gegnum fjölmiðla."

„Glæpurinn sem hann framdi: Hann var maðurinn sem benti á hagkerfið sem virtist standa sig best í Evrópu, keisarann sveipaðan peningalegum litklæðum; og sagði að það væri nakið. Innsæi hans stakk á íslensku bólunni. Og jafnframt kann hann að leiða til þess að margar breskar stórverslanir skipta um eigendur," segir Sunday Herald..

Blaðið segir að greining Valgreens á íslenska hagkerfinu hafi valdið miklum umbrotum. Skyndilega hafi bandarískir fjárfestar hætt að framlengja lán til Íslendinga. Gengi krónunnar lækkaði. Seðlabanki Íslands, sem hafi gert sér grein fyrir því að grípa þurfti til aðgerða, hækkaði stýrivexti meira en búist hafði verið við, í 11,5% til að styrkja gjaldmiðil landsins.

Í greininni er haft eftir miðlurum að íslensk fyrirtæki, sem hafa fjárfest í Bretlandi og víðar, kunni að þurfa að selja erlendar eignir sínar til að standa við skuldbindingar sínar á Íslandi og mæta gengisfalli krónunnar.

Er m.a. vísað til þess að Baugur Group hafi látið þar við sitja eftir að hafa keypt 10,2% hlut í Woolworths og FL Group hafi selt hlut sinn í easyJet.

Í lok greinarinnar segir Valgreen, að það versta sé nú yfirstaðið og honum hafi tekist að draga upp raunhæfari mynd af íslensku efnahagslífi en áður birtist. „Bankarnir voru okkur afar reiðir, en þegar fólk fær fréttir um að húsið þeirra standi í björtu báli þá reynir fólk að bregðast við þeirri staðreynd og það hefur Seðlabankinn gert, svo þetta hefur orðið til einhvers góðs."

Grein Sunday Herald

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK