Í skýrslum, sem hafa birst um íslenskt efnahagslíf að undanförnu, hefur ýmsu verið haldið fram. Sumt sem kemur fram í skýrslu Danske Bank er dramatískara en við höfum séð lengi, segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, á fjölmennum fundi hjá Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Segir Þórður að sjónarhorn Danske Bank sé of þröngt í skýrslu um Ísland. Of mikið sé litið til hluta eins og erlendra skulda Íslands án þess að minnst sé á erlendar skuldir ríkja eins og Sviss og fleiri stöndugra ríkja.
Þórður er sammála því að verðbólga á Íslandi er of mikil og sé svipað ástand á Íslandi og var fyrir fjórum árum. Við þessu þarf að bregðast en það taki tíma. Líkti Þórður því við spennu á kappleik. Auðvelt sé að standa upp og hvetja sitt lið en oft erfiðara að setjast niður aftur.
Hagvöxtur hefur verið mikill á Íslandi síðasta áratug og mun meiri heldur en í Bandaríkjunum og á evrusvæðinu að sögn Þórðar. Segir hann að ástæður þess að efnahagsástandið hafi verið jafn gott og raun ber vitni á Íslandi er að hér hefur verið unnið markviss að því að bæta það. Meðal annars með skattalækkunum á fyrirtæki og fleiri aðgerðum sem hafa skilað árangri. Þetta veldur því að Ísland skorar hátt á öllum listum hvað varðar velsæld.
Að sögn Þórðar hefur íslenskur verðbréfamarkaður vaxið verulega á undanförnum árum enda ekki langt síðan að ekki var starfandi hlutabréfamarkaður í landinu. Íslenska úrvalsvísitalan hefur verið hástökkvari í alþjóðlegum samanburði á hlutabréfavísitölum og mikil velta hefur einnig verið á markaðnum, þá ekki síst ef litið er til hlutfalls landsframleiðslu.
Þórður kom inn á í erindi sínu fækkun félaga á íslenskum hlutabréfamarkaði og sagði hana meðal annars tilkomna vegna sameiningu félaga. Skráð félög í dag séu mun stærri og öflugri en áður.