Tilfinningasemin kom aðalhagfræðingi Danske Bank á óvart

Mikill áhugi var fyrir fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga um …
Mikill áhugi var fyrir fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga um skýrslu Danske Bank. mbl.is/Árni Sæberg

Carsten Valgreen, aðalhagfræðingur Danske Bank, segir að stundum sjái þeir sem standa fyrir utan hlutina betur og vísar þar til viðbragða sem bankinn hafi fengið héðan frá Íslandi vegna skýrslu sinnar um íslenskt efnahagslíf. Segir hann að það hafi komið sér á óvart þessi miklu viðbrögð og þá ekki síst sú tilfinningasemi sem oft kom fram meðal annars í þeim tölvupóstum sem hann hafi fengið frá aðilum á Íslandi. Þetta kom fram í máli Valgreen í pallborðsumræðum á fundi FVH.

Segir hann að ánægja ætti að vera hér um að aðilar eins og Danske Bank og Merril Lynch séu farnir að fylgjast með íslensku efnahagslífi. Valgreen segist ekki geta fullyrt um að spár Danske Bank gangi eftir en íslensku bankarnir verði að búast við því að fá meiri athygli erlendis frá og oft gagnrýni. Sumar skýrslur séu neikvæðar og aðrar jákvæðar. Hingað til hafi þær flestar verið jákvæðar en það geti breyst.

Edda Rós tók undir með Valgreen að ef íslensku bankarnir vilji vera með á alþjóðavísu þá verði þeir að geta tekið neikvæðum fregnum. Mikilvægt sé að muna að spá um efnahagskreppu sé ekki veðurspá. Hún segist því vonast til þess að Íslandi takist að sýna fram á að geta tekist á við samdrátt án þess að til kreppu komi. Samdráttur er væntanlegur í íslensku efnahagslífi segir aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, Arnór Sighvatsson. Segir Arnór að varlega þurfi að fara í að bera Ísland saman við önnur ríki, jafnvel ríki sem hafa gengið í gegnum efnahagsörðugleika, til að mynda Taíland. Aðstæður hér ólíkar til að mynda hvað varðar stöðu Seðlabanka landanna.

Aðspurður segir Tryggvi Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, að erfitt sé að segja til um hvort fjármálakreppa sé á leiðinni. Það sé einhver möguleiki á en ef svo er þá er hún minniháttar og muni ganga hratt yfir. Tryggvi tekur undir með fleirum á fundinum að ekki sé hægt að bera saman efnahagslíf á Íslandi og Taílandi vegna þeirra ólíku aðstæðna sem einkenna löndin tvö. Þá ekki síður Kóreu og Ísland vegna þeirrar spillingar sem einkenndi Kóreu þegar fjármálakreppa reið þar yfir.

Christensen tók fram í pallborðinu að Danske Bank gæti ekki fullyrt að fjármálakreppa sé væntanleg á Íslandi en slíkt sé ekki ósennilegt. Hraður vöxtur verði ekki án vaxtaverkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK