FME ómeðvitað um helstu áhættuþættina

Eftir Bjarna Ólafsson bjarni@mbl.is
Sérfræðingar greiningardeildar breska Barclays-bankans halda því fram í nýrri skýrslu um íslensku bankana að Fjármálaeftirlitið (FME) sé að mestu ómeðvitað um helstu áhættuþætti bankanna, sérstaklega skuldsetningu þeirra og eiginfjárstöðu. Eftirlitið skorti viðmiðunarreglur hvað þetta varðar.

Tekið er fram í skýrslunni að tungumálaörðugleikar hafi verið nokkrir á fundi sem skýrsluhöfundar Barclays Capital áttu með Fjármálaeftirlitinu. Þeir funduðu einnig með Seðlabankanum en bera honum aðra söguna. Bankinn sinni eftirlitsskyldunni vel og hafi undanfarin tvö ár tekið virkan þátt í umræðunni um ofhitnun hagkerfisins og áhrif skuldsetningar bankakerfisins. Samfelld hækkun stýrivaxta undanfarin ár beri þessum áhyggjum Seðlabankans vott.

Meiri líkur á áföllum

Í ferð sinni til Íslands í lok mars sl. áttu fulltrúar Barclays jafnframt fund með viðskiptabönkunum; Glitni, KB banka og Landsbanka. Þeir telja líkur á áföllum hjá íslenskum bönkum meiri en fjármálamarkaðir gera ráð fyrir í verðlagningu á skuldabréfum bankanna.

Skýrsluhöfundar telja áhættuna minnsta hjá Glitni, en vegna þess að áhættan er meira kerfislæg en sjálfsprottin hjá bönkunum mælir greiningardeild Barclays frekar með því að fjárfestar dreifi áhættunni á skuldabréf frá bönkunum öllum.

Vegna þess að Barclays telur skuldabréfamarkaðinn ofmeta skuldabréf íslensku bankanna er mælt með því í skýrslunni að fjárfestar taki skortstöðu gegn bréfunum.

Viðhorfsbreyting bankanna

Skýrsluhöfundar taka fram að þeir hafi orðið varir við viðhorfsbreytingu hjá íslensku bönkunum og að þeir séu reiðubúnari en áður að hlusta á athugasemdir fjárfesta á skuldabréfamarkaði og að á fundunum hafi í fyrsta skipti komið fram að til greina kæmi að draga úr vexti þeirra vegna.

Allir bankarnir hafi náð árangri í því að tryggja lausafjárstöðu sína til skemmri tíma með því að leita nýrra leiða við fjármögnun, en hins vegar séu aðaláhættuþættirnir óbreyttir og því telji Barclays horfur ekki bjartar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK