Með skortstöðu er átt við að fjárfestir veðji á að verð á skuldabréfum lækki, selji bréf sín og kaupi aftur þegar verð hefur fallið. Mismunurinn sem þar verður til er þá hagnaður fjárfestisins.
„Ég hef rætt þessi mál við bankastjórn Seðlabankans í dag [í gær] og óskað eftir því að þeir veiti mér sem bestar upplýsingar um það sem þarna var að gerast. Það er í sjálfu sér ekkert sem bannar aðilum að taka slíka stöðu, en það sem er alvarlegt er ef aðilar eru að gera úttekt á efnahagskerfi með mjög neikvæðum hætti, sem ekki á við rök að styðjast, og síðan gerist það í framhaldi af því að slík staða er tekin," segir Halldór.
Hann segist engar sannanir hafa fyrir því að þetta hafi gerst, en hann viti að m.a. Danske Bank hafi sagt upp viðskiptum við íslenskar fjármálastofnanir eftir 100 ára viðskipti, þar sem alltaf hafi verið staðið í skilum. „Maður spyr sig hvað er um að vera, hvers vegna gerist það?" Hann segist hafa heyrt orðróm um að þessi fyrirtæki hafi tekið upp skortstöðu úr ýmsum áttum, m.a. frá erlendum fjölmiðlum og íslensku bönkunum.
Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær tók Norski olíusjóðurinn upp skortstöðu gegn íslensku bönkunum. Halldór segir að með því sé sjóðurinn ekki að brjóta lög, en athæfið sé sérlega siðlaust þar sem í gangi sé samkomulag við seðlabanka nágrannaríkjanna um efnahagslegan stöðugleika, og Norski olíusjóðurinn heyri undir norska seðlabankann. „Íslenska efnahagskerfið er vissulega viðkvæmt, við gerum okkur grein fyrir því. Það er lítið, og það er auðveldara að hafa áhrif á það utan frá heldur en önnur efnahagskerfi. En við ætlumst til þess að þeir sem hafa viðskipti við okkur, og hafa notið trausts hér á landi, komi fram við okkur með heiðarlegum hætti. Ég tel mikilvægt að sannleikurinn komi fram í þessum efnum. Ég veit ekki til þess að nokkur banki hafi nokkurn tímann tapað á viðskiptum við Ísland," segir Halldór.
„Ég vil ekki vera með fullyrðingar um hluti sem ég hef ekki fengið staðfesta, en ég vil fá sannleikann upp á borðið, sérstaklega til þess að við getum lært af því og farið yfir það með hvaða hætti við getum varið okkur gagnvart slíkum vinnubrögðum."
Það er mjög alvarlegt mál ef greiningaraðilar koma með dökkar spár fyrir íslenskt efnahagslíf, og hagnast svo sjálfir á þeim lækkunum sem verða í kjölfar skýrslna þeirra, segir Halldór. "Ef það er gert eru menn að því til að skapa skilyrði fyrir slíkan hagnað. Það er eitt af því sem hefur komið fram, að starfsmenn Norska olíusjóðsins hafi verið að dreifa neikvæðum ummælum um Ísland og íslenskt viðskiptaumhverfi. Mér finnst afskaplega sérkennilegt hvernig þessi sjóður vinnur."