Síðastliðinn miðvikudag kom skýrsla um íslenskt efnahagslíf frá The Royal Bank of Scotland (RBS). Þar kemur m.a. fram að vandi Íslands sé ekki lánaáhætta heldur fyrst og fremst gjaldmiðilsáhætta. RBS þótti bæði Fjármálaeftirlitið og bankarnir gefa sannfærandi svör um styrk efnahagskerfisins ef til áfalla kæmi.
Fulltrúar Barclays nefna í skýrslu sinni að tungumálaörðugleika hafi orðið vart á fundinum með FME. Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, kvaðst ekki skilja þessa umsögn. Sjálfur hafi hann starfað erlendis í átta ár í enskumælandi umhverfi og telji samstarfsmenn sína ágætlega færa í ensku. Einn starfsmanna FME, sem fundaði með Barclays, á t.d. að baki átta ára starf í bönkum í Edinborg og London.