Sleggjudómur, er einkunnin sem Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME), gefur umsögn sérfræðinga greiningardeildar Barclays Capital um FME. Sérfræðingarnir áttu fund með fulltrúum FME í lok mars síðastliðins. Þeir sögðu m.a. í skýrslu sinni að FME væri að mestu ómeðvitað um helstu áhættuþætti íslensku bankanna.
„Starfsmenn FME fóru vel yfir það með fulltrúum Barclays hvernig við fylgjumst með bönkunum. Bæði hvaða skýrslum við söfnum frá þeim, m.a. um lán vegna hlutabréfakaupa eins og sjá má á heimasíðu okkar,“ sagði Jónas. „Við fórum einnig yfir það hvernig við gerum úttektir á bönkunum og fylgjumst með áhættustýringunni. Við fórum í álagsprófið okkar sem bankarnir standast allir vel. Það er ekki minnst einu orði á neitt af þessu í skýrslu Barclays.“
Jónas sagði að starfsmönnum FME, sem sátu fundinn, hafi þótt fulltrúar Barclays hafa komið með mjög mótaðar skoðanir á fundinn. Fulltrúar Barclays segja m.a. að FME skorti viðmiðunarreglur. Spurður um þetta atriði kvaðst Jónas ekki átta sig á því við hvað væri átt. „Það er erfitt að svara því sem maður áttar sig ekki á, því þetta er ekki rökstutt neitt frekar. Við söfnum upplýsingum frá bönkunum um ýmsa þætti. Eitt af því sem ég ætla að beita mér fyrir er að gagnaskil frá eftirlitsskyldum aðilum til FME verði rafræn. Þannig má vinna hraðar úr upplýsingum. Ég held að við séum alveg með á nótunum um áhættuna í bankarekstri. Meginatriðið er að stýra áhættunni og það eru bankarnir að gera. Við höfum átt fundi með þeim öllum, tiltölulega nýlega, og þeim hefur tekist að fjármagna sig út þetta ár og hafa ágætar áætlanir fyrir næsta ár, að mér sýnist.“
Jónas minnti á að í nóvember sl. flutti hann ræðu þar sem hann benti m.a. á hraða útlánaaukningu bankanna, hve háðir bankarnir væru erlendri fjármögnun og nýjar áhættur í alþjóðlegu umhverfi bankanna. „Umtalsáhættan er ef til vill sú sem við erum að sjá núna. Hún er eitthvað sem bæði við og bankarnir þurfum að mæta,“ sagði Jónas.