Krónubréfin munu reynast íslensku krónunni erfið

Gengi Evru gæti orðið 105-110 krónur við næstu áramót, gangi spár Royal Bank of Scotland (RBS) eftir, en í nýrri skýrslu um ástand efnahagsmála hér á landi spáir greiningardeild bankans því að gengi krónunnar eigi enn eftir að lækka um sem nemur 15-20% á árinu.

Í skýrslunni, sem ber heitið Iceland: Still Melting (Ísland: bráðnar enn), segir RBS að íslenska ríkið eigi við gengisvanda að stríða, en engan lánstraustsvanda, á meðan viðskiptabankarnir þrír eigi ekki við neinn gengisvanda að etja, en dálítinn lánstraustsvanda, en meginefni skýrslunnar er þróun gengis krónunnar og framtíðarhorfur.

Telja skýrsluhöfundar að helsti vandi íslensku krónunnar stafi af þeim mikla fjölda skuldabréfa sem gefin voru út í íslenskum krónum, en á innan við einu ári voru gefin út skuldabréf að andvirði 220 milljarða íslenskra króna, sem nemur um 23% af þjóðarframleiðslu. Stór hluti þessara skuldabréfa kemur til greiðslu á seinni hluta þessa árs og í upphafi þess næsta og mun það valda enn frekari lækkun á gengi krónunnar.

Í skýrslunni er lögð áhersla á að hvorki íslenska ríkið né íslensku bankarnir eigi við alvarlegan lánstraustsvanda að etja. Skuldir ríkissjóðs hafi farið lækkandi ár frá ári og séu nú um 30% af landsframleiðslu, og gefi það til kynna að ríkið hafi burði til að koma einum eða jafnvel tveimur bankanna til aðstoðar ef þörf krefði. Skýrsluhöfundar telja hins vegar afar ólíklegt að þess gerist þörf.

Sveigjanlegt hagkerfi

Þá kemur fram í skýrslunni að álagspróf sem Fjármálaeftirlitið (FME) lét gera á íslensku bönkunum leiddi í ljós að þeir muni mjög líklega geta staðið af sér mjög harða tíð. Þá sé fjármögnun bankanna dreifð og skuldabréfamarkaðir standi þeim enn opnir.

Skýrsluhöfundar segja nokkra þætti geta hægt á, eða snúið við, gengisþróuninni. Í fyrsta lagi muni áform um frekari uppbyggingu áliðnaðar hafa jákvæð áhrif, gangi þau eftir. Þrátt fyrir að framkvæmdir hæfust ekki fyrr en árið 2008 sýni reynslan að markaðir bregðist við slíkum fréttum nokkru fyrr. Þá telja þeir líklegt að haldi Seðlabanki Íslands áfram að hækka vexti geti það laðað til baka fjárfesta á skuldabréfamarkaði.

Í skýrslunni segir að lokum að í raun sé ekki rétt að flokka íslenska hagkerfið með svokölluðum nýmarkaðshagkerfum. Það hafi reynst einstaklega sveigjanlegt og þolað áföll mjög vel, auk þess sem fjölbreytileiki í viðskiptalífinu sé mikill.

bjarni@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK