Ekki er ástæða til að ætla að lending íslensks efnahagslífs nú verði jafnharkaleg og árin 2001– 2002, hvað þá að hún muni jafnast á við kreppuna í Asíu árið 1998, að mati greiningardeildar Danmerkurútibús þýska bankans HSH Nordbank, sem gefið hefur út skýrslu um ástand og horfur í íslensku efnahagslífi, en skýrslan ber heitið Iceland – Stirred, not shaken, sem útleggja mætti sem „Ísland: Hrært, en skelfur ekki.“ Bankinn hefur átt í talsverðum lánsviðskiptum við íslenska banka í gegnum tíðina.
Skýrsluhöfundar telja verðbólgu mestu og augljósustu hættuna sem að íslensku efnahagslífi steðjar. Veiki bletturinn á hagstjórn Íslands sé hins vegar ríkisfjármálin, og segja skýrsluhöfundar að þar megi aðeins stíga á bremsuna. Stór hluti þenslunnar sé til kominn vegna fjármálastefnunnar og það sé ekki heppilegt í stöðu þar sem veruleg hætta sé á ofhitnun.
Ekki eins og í Asíu
Segja þeir að hreyfingar í átt til launaskriðs á íslenskum vinnumarkaði séu varhugaverðar og ofan
á það bætist verðbólguáhrif gengisveikingar krónunnar.
Aftur á móti gerir HSH ekki ráð fyrir mikilli
minnkun hagvaxtar á þessu og næsta ári, einkum
vegna jákvæðra áhrifa gengislækkunarinnar.
Þáttur einkaneyslu í hagvexti muni minnka, en
þáttur útflutnings aukast í takt við lækkun gengisins.
Þetta muni jafnframt hafa jákvæð áhrif á
viðskiptahallann, sem margar greiningardeildir
hafa gert að umtalsefni.
Bankinn telur gengi krónunnar nú vera í kringum það sem eðlilegt geti talist, en skýrsluhöfundar búast samt við frekari lækkun upp á um 5–10% vegna hefðbundins yfirskots við aðstæður sem þessar. Eins og áður segir telur HSH að Ísland muni ekki upplifa samskonar kreppu og skall á í Asíu árið 1998, einkum vegna virks eftirlits á fjármálamarkaði hér, auk sterkrar stöðu ríkissjóðs.