Grunnstoðir íslensks efnahags traustar

Í nýrri skýrslu Roberts Mishkins, prófessors við Columbia-háskóla, og Tryggva Þórs Herbertssonar, forstöðumanns Hagfræðistofnunar, segir að grunnstoðir íslensks efnahags séu traustar. Sigurður Kjartan Hilmarsson fréttaritari fylgdist með þegar Mishkin kynnti skýrsluna í New York og hlýddi á Geirs H. Haarde utanríkisráðherra.

Viðskiptaráð Íslands stóð í gær fyrir fundi um stöðugleika íslenska hagkerfisins fyrir fjárfesta og blaðamenn í New York. Þar var kynnt ný skýrsla um viðfangsefnið, eftir hagfræðiprófessorana Robert Mishkin við Columbia Graduate School of Business og Tryggva Þór Herbertsson forstöðumann Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Ólafur Jóhann Ólafsson formaður Íslenska-ameríska verslunarráðsins hóf fundinn og greindi frá því að markmið kynningarinnar væri að greina milli sögusagna og staðreynda í hinni miklu umræðu sem hefði orðið um íslenskt efnahagsumhverfi á undanförnum mánuðum. Því næst tók Mishkin til máls og fjallaði um niðurstöður sínar og Tryggva.

Rökréttur viðskiptahalli

Mishkin fór í upphafi almennt yfir grunnstoðir íslensks hagkerfis og stofnanaumhverfis. Hann benti á að stærð og skilvirkni íslenskra stofnana hefði gert að verkum að íslenska hagkerfið væri verulega sveigjanlegt. Því til stuðnings benti hann á að viðskiptahallinn sem oft væri litið á sem vandamál hefði á Íslandi, í áranna rás, lagast fljótt þegar gengi krónunnar lækkaði og þyrfti því ekki endilega að vera skýrt merki um viðvarandi erfiðleika í efnahagsmálum.

Hann varaði menn enn fremur við að líta á viðskiptahallann sem skýrt hættumerki heldur ætti að líta á hvað lægi að baki honum. Til að mynda væri viðskiptahalli vegna lántöku til arðbærra fjárfestingarverkefna ekki slæmur þar sem það þýddi einfaldlega að mikið væri af fjárfestingartækifærum á Íslandi sem mundu í framtíðinni standa undir endurgreiðslu á lánum. Að sama skapi væri rökrétt hegðun heimila á Íslandi að nota tækifærið þegar krónan er sterk til að fjármagna varanlegar neysluvörur eins og bifreiðar en halda aftur af sér þegar krónan er veik - áhrif slíkrar hegðunar gerðu að verkum að viðskiptahallinn réttist skjótt í gegnum veikingu krónunnar þegar heimilin drægju úr slíkum kaupum.

Staða ríkissjóðs, lífeyriskerfið og breytt staða bankageirans

Mishkin lagði jafnframt áherslu á að tveir grundvallarþættir íslensks efnahagslífs væru mjög sterkir. Sá fyrri væri sterk staða ríkissjóðs og niðurgreiðsla skulda hans en afgangur á ríkisfjármálum væri í kringum 3% af þjóðarframleiðslu og skuldir ríkissjóðs yrðu árið 2006 einungis í kringum 1,3% af þjóðarframleiðslu sem væri með því besta sem þekktist í heiminum. Seinni stoðin sem Mishkin tilgreindi var mjög öflugt lífeyrissjóðakerfið á Íslandi.

Mishkin ræddi breytingarnar sem hafa orðið á íslensku bankakerfi. Íslenski bankageirinn hefði þróast frá smárri, staðbundinni lánastarfsemi á Íslandi út í að vera alþjóðleg starfsemi þar sem íslenskir bankar eru orðnir umsvifamiklir í miðlun fjármagns í Skandinavíu og á Bretlandseyjum sérstaklega. Þar af leiddi að bankageirinn væri sambærilegur við ríki með hlutfallslega viðamikla bankstarfsemi eins og Sviss, Hong Kong og Holland. Því gætu menn séð að þrátt fyrir mikla erlenda lántöku íslenskra banka hefðu erlendar lánveitingar og eignir bankanna vaxið að sama skapi. Bankarnir væru því ekki eins viðkvæmir fyrir sveiflum á gengi krónunnar og menn mundu í upphafi halda ef þeir litu á bankana sem lánastofnanir sem fjármögnuðu eingöngu innlend verkefni og eignir. Í skýrslunni kemur fram að í marslok 2006 voru erlendar eignir og skuldir bankanna í jafnvægi eða í kringum 5,000 milljónir á bæði eigna- og skuldahlið.

Ísland uppfyllir ekki klassísk skilyrði um óstöðugleika

Því næst fór Mishkin yfir það hvort Ísland uppfyllti einhver þau skilyrði sem almennt gæfu vísbendingu um yfirvofandi fjármálaóstöðugleika. Í stuttu máli var svar hans að svo væri ekki og í raun margt í stöðu mála á Íslandi sem væri öðrum ríkjum til eftirbreytni. Þessu til stuðnings fór Mishkin yfir fimm þætti sem hann taldi mikilvæga:
  • Þó að aukið frjálsræði geti leitt til óstöðugleika þá hefur fjármálamarkaðurinn á Íslandi haft góðan tíma til að aðlagast auknu frjálsræði síðan hann varð að fullu frjáls 1995. Einnig séu eftirlitsstofnanir fjármálamarkaðarins eins og Fjármálaeftirlitið sterkar, en þau lönd sem hafa gengið í gegnum verulegan óstöðugleika á fjármagnsmörkuðum hafi iðulega haft nýfrjálsa markaði með veikar reglugerðir og eftirlitsstofnanir.
  • Eins og að ofan var getið sé staða ríkisfjármála á Íslandi mjög sterk og lífeyrisskuldbindingar vel fjármagnaðar.
  • Peningamálastefna á Íslandi sé skilvirk við að halda verðbólgu í skefjum, sérstaklega ef hækkanir á húsnæðisverði eru aðgreindar frá almennum verðlagsbreytingum.
  • Hár viðskiptahalli getur flýtt fyrir óstöðugleika í fjármálum en þegar smá ríki eins og Ísland eiga í hlut þá geta tímabundnar háar fjárfestingar, eins og t.d. álversframkvæmdir, skekkt myndina. Jafnframt hefur viðsnúningur viðskiptahallans, í gegnum tíðina, ekki leitt til fjármálaóstöðugleika á Íslandi.
  • Í síðasta lagi benti Mishkin á að ekki væri réttmætt að bera Ísland saman við mörg lönd sem hefðu lent í fjármálakreppu, eins og Taíland og önnur svokölluð þróunarlönd, þar sem mun sterkara stofnanaumhverfi væri á Íslandi en í þeim ríkjum.

    Renna Fjármálaeftirlitinu inn í Seðlabankann

    Þrátt fyrir að Ísland uppfyllti ekki klassísk skilyrði um fjármálaóstöðuleika taldi Mishkin að Ísland mætti gera betur á nokkrum sviðum og lagði til breytingar sem mundu auka trúverðuleika íslenska hagkerfisins.
  • Eftirliti með fjármagnsmarkaðnum væri best sinnt með sameiningu Fjármálaeftirlitsins við Seðlabanka Íslands. Ísland er lítið land með takmarkaða bolmagn og því væri best að ein öflug stofnun sæi um eftirlit með fjármagnsmarkaðnum frekar en að þeirri ábyrgð væri dreift á tvær stofnanir.
  • Íslensku viðskiptabankarnir ættu að auka og bæta upplýsingagjöf sína, slíkt mundi bæta stöðu þeirra þegar kemur að endurfjármögnun eigna þeirra.
  • Draga ætti úr áhrifum breytinga á fasteignaverði í verðbólgumælingum þar sem fasteignaverð skekkti óhóflega mælingar á verðbólgu og gæfi því ranga mynd af getu Seðlabankans til að viðhalda verðbólgumarkmiðum sínum.
  • Seinasta tillaga hans var að ríkið ætti að setja sér formlegar reglur um útgjöld ríkissjóðs þannig að þau yxu ekki meira en sem næmi langtímavexti þjóðarframleiðslu. Slíkt mundi þýða að draga ætti úr útgjöldum ríkissjóðs í uppsveiflu en hlutfallslega auka þau í hallæri.

    Í fyrirspurnatíma svaraði Mishkin því hvort Ísland ætti að taka upp evruna. Hann taldi svo ekki vera. Ísland hefði sýnt að það væri fært um að reka skilvirka sjálfstæða peningamálastefnu.

    Spurningin um evruna væri því aðeins stjórnmálalegs eðlis, hvort Ísland vildi taka upp evruna til að ná nánari pólitískum samruna við Evrópu.

  • Nánar um málið
    í Morgunblaðinu
    Áskrifendur:
    Nánar um málið
    í Morgunblaðinu
    Áskrifendur:
    Fleira áhugavert
      ISK
      USD
      EUR
      GBP
      CAD
      DKK
      NOK
      SEK
    Fleira áhugavert
      ISK
      USD
      EUR
      GBP
      CAD
      DKK
      NOK
      SEK