Tryggi Þór: Áhugi greiningaraðila minnir á veiðimenn sem finna blóðlykt

Tryggvi Þór Herbertsson forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands
Tryggvi Þór Herbertsson forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands Kristinn Ingvarsson

Vegna óróa á fjármálamörkuðum hefur Ísland verið mikið í sviðsljósinu undanfarið. Greiningardeildir erlendra banka hafa skrifað mikið um Ísland og sumt á undarlegum nótum. Tryggi Þór Herbertsson, prófessor og forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, segist hafa velt þessu fyrir sér hvaðan þessi mikli áhugi kemur. Hann segist telja að þessi mikli áhugi sé svipaður og hjá þeim sem veiða. Þeir finna blóðlykt.

Þetta kom fram í upphafsorðum Tryggva Þórs á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs Íslands þar sem skýrsla, sem hann ásamt Frederic S. Mishkin prófessor við Columbia háskóla í New York, unnu fyrir Viðskiptaráðið um fjárhagslegan stöðugleika á Íslandi.

Segir Tryggvi Þór að Ísland eigi ekkert sameiginlegt með þeim ríkjum, sem landið hefur verið borið saman við í skýrslum greiningardeildanna, svo sem Taílands og Argentínu, enda sé Ísland ekki nýmarkaðsríki.

Tryggvi sagði að Ísland væri smæsta land heims með sjálfstæða peningastefnu. Hér er gríðarmikill viðskiptahalli en Tryggvi sagði, að sagan sýndi að hagkerfið væri mjög sveigjanlegt og aðlagar sig fljótt í gegnum gengi krónunnar. Þannig geta orðið umskipti úr viðskiptahalla í viðskiptaafgang á mjög stuttum tíma eða innan við ári.

Viðskiptajöfnuðurinn lítur öðrum lögmálum í litlum en stórum löndum, að sögn Tryggva Þórs, og því þarf að túlka hann á annan veg. Sagði Tryggvi, að viðskiptahalli geti verið hagkvæmur og stórar og strjálar fjárfestingar leiði til meiri sveiflna í litlum hagkerfum. Ef gengi krónunnar er óvenju sterkt geti verið skynsamlegt fyrir heimilin að taka lán og kaupa innfluttar neysluvörur. Það ástand, sem hefur verið hér undanfarin misseri, er í raun útsala á innfluttum vörum, að sögn Tryggva Þórs.

Hann sagði, að ástand ríkisfjármála á Íslandi sé mjög gott og að flestar þjóðir vildu vera í sporum Íslands hvað það varðar. Þá hafi eignir lífeyrissjóðanna vaxið gríðarlega og nú séu þær komnar vel yfir 120% af landsframleiðslu sem sé óvenjulegt í alþjóðlegu samhengi. Hins vegar hafi erlendar skuldir vaxið gríðarlega á sama tíma. Þessar skuldir, samanvið þennan mikla gríðarlega viðskiptahalla sem hefur verið hér bæði í fyrra og í ár, virki á suma hagfræðinga sem viðvörunarbjöllur.

Tryggvi sagði, að það sem geti leitt til óstöðugleika í fjármálum, það er kreppu, sé meðal annars frelsi á fjármálamörkuðum þar sem eftirlitsstofnanir eru lélegar. Samdráttur í efnahag bankanna leiði til gengiskreppu og seðlabanki geti ekki varið gengið gjaldmiðils með því að hækka vexti vegna þess að það geti skaðað bankana enn frekar.

Þetta er hins vegar ekki vandamál á Íslandi að sögn Tryggva Þórs. Hann sagði að vandamál vegna aukins frelsis komi jafnan fram innan fimm ára frá því að frelsi sé innleitt. Ísland lauk frelsisvæðingu á fjármálamarkaði um miðjan síðasta áratug. Sagði Tryggvi Þór, að reglur og stofnanir á Íslandi séu sterkar og álagspróf bendi til þess að eigið fé sé nægt til að standast áföll.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK