Greiningardeild Morgan Stanley telur verð skuldabréfa allra íslensku viðskiptabankanna þriggja á eftirmarkaði vera hagstætt en þó einna hagstæðast á skuldabréfum Glitnis. Sérfræðingar Morgan Stanley eru með þessu að segja að ávöxtunarkrafan sé í reynd hærri en efni standa til og benda á að tryggingarálag á skuldabréfum íslensku bankanna hafi hækkað um fimm punkta í síðustu viku án þess að að baki þeirri hækkun hafi búið neinar fréttir um breytt lánskjör bankanna.
Glitnir ódýrastur
"Okkur virðast allir íslensku bankarnir vera ódýrir og viðskiptakjör [með skuldabréf ] Glitnis eru að okkar mati í engu samræmi við undirstöðurnar í rekstri bankans. Álagið á [skuldabréfum] Glitnis hefur vanalega verið 15-20 punktum lægra en hinna íslensku bankanna (sem við teljum vera sanngjarnt) en nú er álagið hjá Glitni aðeins sjö punktum lægra en hjá Landsbankanum," segir Morgan Stanley.
Þar er bent á að uppgjör Glitnis fyrir annan fjórðung ársins verði birt 1. ágúst og litlar líkur séu á að það verði undir væntingum; raunar hafi markaðurinn metið áhættu í rekstri íslensku bankanna með þeim hætti að jafnvel viðunandi afkoma muni hafa jákvæð áhrif og leiða til lækkunar á ávöxtunarkröfunni. Af þessum sökum búast sérfræðingar Morgan Stanley við að tryggingarálagið, sem endurspeglar vaxtaálagið, á bréfum Glitnis, sem nú sé 0,53-0,57%, muni lækka um að minnsta kosti tíu punkta fyrir miðjan ágúst.