Heimsferðir fengu í gær afhenta flugvél af gerðinni Boeing 737-800 sem félagið hefur tekið á langtímaleigu. Andri Már Ingólfsson, forstjóri Heimsferða, segir félagið ætla að bæta þjónustuna við viðskiptavini sína og fljúga með þá undir merkjum Heimsferða. "Við ætlum þó ekki í almennan flugrekstur í samkeppni við þau flugfélög sem fyrir eru á markaðinum," segir Andri Már.
Þetta er fyrsta vélin af fjórum sem Heimsferðir ætla að leigja í þessum tilgangi, hinar þrjár verða afhentar í vor.
"Flugvélin er ágætlega rúm með 184 sæti og mun sinna nánast öllu okkar flugi í vetur, þar á meðal flugi til Prag, Búdapest og Krakár auk Kanaríeyja og Kúbu. Sem dæmi um sveigjanleikann sem vélin veitir má nefna að nú munum við geta boðið upp á morgunflug til Kanaríeyja.
Þetta er í fyrsta sinn sem flogið er undir merkjum Heimsferða.