Jákvæðari tónn í nýrri skýrslu Merrill Lynch

eftir Arnór Gísla Ólafsson

og Hjálmar Jónsson

MUN JÁKVÆÐARI tónn er í nýrri skýrslu Merrill Lynch um íslensku bankana en í henni er talið líklegt að íslensku bankarnir muni innan tíðar leita aftur um fjármögnun á markaðina í Evrópu með skuldabréfaútgáfu þar og að bæði Kaupþing banki og Glitnir muni færa út kvíarnar með kaupum á fjármálafyrirtækjum. Sérfræðingar Merrill Lynch ganga að því sem nær gefnu að tilgangurinn með hlutafjáraukningu Kaupþings banka sé kaup á erlendum banka sem sé með hátt hlutfall innlána og telja austurríska bankann BAWAG einna vænlegasta kostinn fyrir Kaupþing banka.

Athygli vekur þó að innbyrðis staða íslensku bankanna er nokkuð breytt að mati sérfræðinga Merrill Lynch, þ.e. þeir eru nú einna gagnrýnastir í garð Glitnis sem til þessa hefur fengið bestu kjörin af íslensku bönkunum. Þeir telja bankann nú áhættusæknari, meðal annars með aðkomu að kaupum Baugs Group á House of Fraser og sölunni á Icelandair og að mati þeirra ætti álagið á bréfum Landsbankans að vera nær álaginu á bréfum Glitnis.

Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, segir að það sé mjög ánægjulegt að sjá að eftir því sé tekið að bankarnir hafi tekið á þeim þáttum sem gagnrýndir hafi verið. Greint sé frá því að Landsbankinn hafi aukið alþjóðlega töku innlána og minnkað markaðsáhættu sína og um þetta sé fjallað með jákvæðum hætti. Að auki sé síðan bent á sterkt og stöðugt eignarhald á bankanum.

Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, segir viðbrögð Merrill Lynch vera nokkuð á skjön við viðbrögð annarra greiningaraðila og markaðarins almennt um þessar mundir. Hann segir að í skýrslunni sé spjótum nokkuð beint að Glitni og kannski sérstaklega sölutryggingu bankans á hlutabréfum í Icelandair, sem að hans mati hafi verið hógvær áhættutaka.

Ekki náðist í talsmenn Kaupþings banka í gærkvöldi.

Sjá nánar á bls. 6 í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK