Í lok viðskipta á Wall Street nú í kvöld nam lækkun Dow Jones vísitölunnar aðeins fimmtán stigum, en fyrr í dag hafði lækkun hennar farið í 340 stig. Framan af degi virtist fjárfestum lítið rórra þótt bandaríski seðlabankinn hefði dælt 17 milljörðum dala inn í bankakerfið.
Fréttaskýrendur segja að þessi afdráttarlausi viðsnúningur á Dow Jones í lok dags sýni að fjárfestar vilji snúa þróuninni við. Þeir virtust þó í dag afar áhyggjufullir vegna erfiðleika veðlánafyrirtækisins Countrywide Financial, stærsta húsnæðisveðlánara Bandaríkjanna, en lækkun á verði bréfa í Countrywide í gær var sú mesta á einum degi síðan 1987.
En þrátt fyrir að Dow hafi rétt svona úr kútnum ríkir enn óvissa á Wall Street, og allar stóru vísitölurnar þrjár eru nú 10% lægri en þær voru um miðjan júlí.