Tæplega 3 milljarða króna tap á rekstri MK One

Frá verslunargötunni Oxford Street í Lundúnum
Frá verslunargötunni Oxford Street í Lundúnum Reuters

Breska fatakeðjan MK One, sem er í meirihlutaeigu Baugs, tapaði 21,4 milljónum punda, tæpum þremur milljörðum króna, á síðasta ári og þurfti keðjan, sem rekur 172 verslanir, að endurskipuleggja fjármál sín í kjölfarið. Breska dagblaðið Times greinir frá þessu í dag.

Samkvæmt endurskoðuðu uppgjöri MK One dróst sala í verslunum sem voru einnig í rekstri á sama tímabili árið á undan saman um 22% á fyrstu fimm mánuðum síðasta árs. Eftir það urðu breytingar á stjórnendateymi MK One og jókst salan um 1% á síðustu sjö mánuðum síðasta árs.

Samkvæmt frétt Times hefur Baugur þurft að setja 15 milljónir punda inn í rekstur MK One og Landsbankinn þurfti að skuldbreyta 38,7 milljón punda.

Baugur og Landsbankinn keyptu MK One árið 2004. Baugur á nú um 60% hlut í fyrirtækinu og Landsbankinn um 40% að sögn Sunday Times en skuldir félagsins voru lækkaðar úr 61,7 milljónum punda í 26,7 milljónir. Times segir að rekstur MK One hafi gengið brösuglega frá því íslensku fjárfestarnir keyptu fyrirtækið. Baugur hafi að undanförnu einnig átt í vandræðum með fleiri verslunarkeðjur, sem fyrirtækið á í Bretlandi, þar á meðal Mosaic Fashions. Þannig hafi hagnaður Mosaic dregist saman um 13% á síðasta ári eftir að félagið var skráð á markaði á Íslandi.

Blaðið hefur eftir Dominic Galvin, forstjóra MK One, að ekki sé gert ráð fyrir því að fyrirtækið skili hagnaði fyrr en eftir 3-5 ár. Galvin, sem tók við starfinu í júlí, lækkaði verð á vörum fyrirtækisins um 15% og breytti vörulínum. Hann fækkaði einnig starfsfólki um 10%.

Galvin segir, að MK One eigi í mikilli samkeppni frá verslunarkeðjunni Primark, sem hefur fært verulega út kvíarnar á undanförnum árum, og einnig frá keðjum á borð við New Look og Peacocks og stórverslunum, sem hafa boðið upp á tískufatnað í auknum máli.

Galvin segist áforma að loka nokkrum verslunum á þessu ári og endurnýja um 60. Þá verða tvær nýjar verslanir opnaðar í október.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK