Guðmundur og Hjálmar Kristjánssynir segjast vona, að með kaupréttarsamningi við heimamenn í Vestmannaeyjum um sölu á tæplega þriðungshlut bræðranna í Vinnslustöðinni til Ísfélagsins náist sátt um framtíðarrekstur Vinnslustöðvarinnar.
Tilkynning bræðranna er eftirfarandi:
„Við bræður eignuðumst hlut í félaginu árið 2002. Forsenda okkar fyrir aðkomu að félaginu var að félagið væri skráð í Kauphöll. Frá þeim tíma höfum við átt gott samstarf við heimamenn í Vestmannaeyjum um rekstur félagins í Eyjum.
Í maí síðast liðnum, okkur að óvörum, fór hópur hluthafa sem réð yfir 50,04% hlutafjár fram á afskráningu félagsins úr Kauphöll og gerði öðrum hluthöfum yfirtökutilboð sem metið var mjög ósanngjarnt af hlutlausum aðila.
Nú höfum við náð samningi við Ísfélag Vestmannaeyja og tengda aðila um kauprétt á okkar eignarhlut, ca. þriðjungshlut, í Vinnslustöðinni hf.
Það er von okkar að með þessum kaupréttarsamningi við heimamenn í Vestmannaeyjum náist sátt um framtíðarrekstur Vinnslustöðvarinnar hf."