„Eiginfjárhlutfallið var orðið heldur lágt“

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Ómar

„Miðað við stöðuna á mörkuðum, þann óróa sem nú er og hugsanlegan óróa framundan þá töldum við að þyrfti að styrkja eiginfjárgrunn FL Group,“ segir Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður FL Group og Baugs Group, spurður um ástæður þess að styrkja þurfi efnahag FL Group.

„Fl Group er kjölfestufjárfestir í banka og rekur tryggingafélag. Við teljum að fasteignir passi mjög vel við þær eignir og þær muni styrkja hvorar aðrar. En það er engin launung að eiginfjárhlutfall félagsins var orðið heldur lágt.“

Jón Ásgeir segir að gengið 14,7 á nýju hlutafé í FL Group sé samkvæmt útreikningi sem hafi verið rökstuddur af bönkunum. Hann neitar því að það gengi sem hefur verið á bréfum félagsins að undanförnu, þ.e. 19 til 20, sé of hátt. Hins vegar sé eðlilegt, þegar um svo stór viðskipti sé að ræða og í því árferði sem við búum nú við, að gefa afslátt af verðinu.

Afsláttur af verði eðlilegur

Hann staðfestir að miklir sviptivindar hafi leikið um FL Group á þriðja ársfjórðungi vegna þrenginga á fjármálamarkaði sem gengið hafa yfir að undanförnu og telur að vextir á lánsfé séu orðnir alltof háir, bæði hér á landi og í Evrópu.

Jón Ásgeir boðar hagræðingu í rekstri FL Group og segir ýmislegt verða skoðað hvað það varðar. Þó liggur fyrir að skrifstofa félagsins í Danmörku verði lögð niður og reksturinn þar sameinaður rekstrinum í London.

„Það er alveg ljóst að það eru færri fjárfestingartækifæri sem menn geta klárað á þessum tímum. Við munum velja mjög vel næstu fjárfestingar. Auk þess höfum við nóg að gera innanhúss, að byggja upp TM, byggja upp Glitni, byggja upp fasteignirnar.“

Hvað varðar Baug segir Jón Ásgeir að fjárfestinga- og fasteignaarmur Baugs verði nú eingöngu fjárfestingaarmur og það einfaldi rekstur Baugs. Baugur geti því einbeitt sér meira að smásölunni og í því sjái hann tækifæri.

Hann segir af og frá að sett hafi verið skilyrði í viðskiptunum um að Hannes Smárason færi úr forstjórastólnum. „Alls ekki. Þetta er allt í góðri sátt. Hannes átti hugmyndina að því að standa upp úr stólnum á þessum tímapunkti, þar sem Baugur var orðinn kjölfestufjárfestir í fyrirtækinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK