Verðmæti Exista féll um 33 milljarða í vikunni

Markaðsverðmæti Exista minnkaði um 4,7% í gær og nemur verðlækkun félagsins í vikunni nú 11,2% eða 33 milljörðum króna.

Verð hlutabréfa í félaginu hefur hríðfallið síðan það náði hápunkti sínum um mitt sumar. Lækkunin nemur nú 43% á fimm mánuðum sem þýðir að nærri 200 milljarðar króna hafa þar farið forgörðum.

Einn hlutur í Exista kostaði fyrir réttu ári 22 krónur. Snörp verðhækkun varð á fyrri hluta ársins í ár sem skilaði sér í nærri tvöföldun, eða 40,25 krónum. Hluturinn kostar nú 22,95 krónur og nálgast skráningarverð félagsins á hlutabréfamarkað í fyrrahaust.

Raunar hafa öll þau félög sem skipa úrvalsvísitölu kauphallarinnar lækkað í verði í vikunni, utan Össur sem stendur í stað. Markaðsverðmæti þessara félaga hefur hrunið um 176 milljarða króna.

Þá hefur sú mikla hækkun sem varð á verði hlutabréfa í úrvalsvísitölunni á árinu nánast þurrkast út. Þegar mest lét, í sumar, hafði gengi úrvalsvísitölunnar hækkað um rúmlega 40% frá áramótum. Nú nemur hækkunin frá áramótum 1,6% þegar tekið er mið af þeim félögum sem nú skipa vísitöluna.

Úrvalsvísitalan samanstendur nú af tólf fyrirtækjum og hafa verðbreytingar á hverju og einu þeirra verið afar mismunandi á árinu. Sex þeirra hafa hækkað í verði frá áramótum, fimm hafa lækkað og Icelandair stendur nú í sama verði og í upphafi árs.

Órói tengdur óvissu um FL

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs, segir óróleikann á mörkuðum valda mönnum áhyggjum. Hann segir þróun mála hjá FL Group hafa áhrif á allan markaðinn.

Viðar Már Matthíasson, formaður yfirtökunefndar, segir nefndina fylgjast náið með þeim breytingum sem séu að verða á hluthafahópi FL Group með tilliti til þess hvort yfirtökuskylda sé að myndast. Hann segir að samstarf Baugs við aðra hluthafa verði meðal annars skoðað. Annars vegar samstarfið við Materia Invest og hins vegar við Gnúp.

Hluthafafundur verður haldinn í FL Group hinn 14. desember og þá verður lögð fram skýrsla um mat á þeim fasteignum sem Baugur lagði inn í FL Group. Morgunblaðið óskaði eftir að fá að sjá skýrsluna, en því var hafnað. Lífeyrissjóðir eru meðal eigenda hlutafjár í FL Group og hefur markaðsvirði hlutafjáreignar þeirra í félaginu lækkað um tæpa þrjá milljarða á árinu.

Í hnotskurn


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK