„Alveg ósammála niðurstöðunni“

Ingimundur Sigurpálsson.
Ingimundur Sigurpálsson. mbl.is/Ásdís

„Ég er gjörsamlega ósammála þessari niðurstöðu. Ég er mjög ósammála því að Eimskip hafi verið í markaðsráðandi stöðu,“ segir Ingimundur Sigurpálsson, fyrrverandi forstjóri Eimskips, um ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

Það lagði í fyrradag 310 milljóna króna sekt á Eimskip vegna alvarlegra brota á samkeppnislögum á árunum 2001 og 2002. Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að Eimskip hefði, í skjóli markaðsráðandi stöðu sinnar, reynt með skipulögðum aðgerðum, að koma aðalkeppinaut sínum, Samskipum, út af markaðnum.

Staða fyrirtækisins ágæt

Ingimundur var forstjóri Eimskips í rúm þrjú ár. Hann tók við starfi forstjóra í ágúst árið 2000 og gegndi því fram í desember árið 2003.

Hann segir að þann tíma sem hann var hjá Eimskipi hafi menn ekki talið að fyrirtækið væri í ráðandi stöðu á markaði, þótt menn hafi gert sér grein fyrir „að staða fyrirtækisins væri ágæt“. Menn hafi verið með stöðu fyrirtækisins á bak við eyrað í öllum markaðsaðgerðum. Lögð hafi veri áhersla á að menn tækju tillit til ákvæða laga. Haldin hafi verið námskeið til að fara í gegnum þessi mál, enda hafi verið faglega unnið hjá Eimskipi.

Ingimundur bendir á að sjálfur hafi hann ekki haft aðkomu að málinu síðustu þrjú árin. Hann hafi ekki verið kallaður fyrir Samkeppniseftirlitið né til ráðgjafar við Eimskip vegna málsins frá því hann hætti störfum þar.

Öll vinna sem unnin hafi verið hjá Eimskipi á þeim tíma sem hann var forstjóri hafi tekið mið af þeirri miklu samkeppni sem þá var á markaði. „Þar af leiðir að ég er ósammála þeim meiningum sem Samkeppniseftirlitið lætur frá sér í þessu máli. Þær byggjast á viðtengingarhætti og huglægu mati,“ segir hann.

Aldrei markmiðið að afmá Samskip af markaðnum

Sem dæmi megi nefna þá fullyrðingu eftirlitsins að það hafi verið markmið Eimskips að afmá Samskip af markaðnum. „Það var aldrei í mínum huga eða huga þeirra sem ég ræddi við á sínum tíma um markaðsmál Eimskips. Því síður að það hafi verið rætt um það að hækka gjaldskrá félagsins í kjölfar aðgerða. Þetta eru algerlega hugarórar þeirra starfsmanna Samkeppniseftirlitsins sem um þetta hafa fjallað.“ Aðgerðir Eimskips á sínum tíma hafi fyrst og fremst miðað að því að ná þeirri markaðshlutdeild sem menn hafi verið með, enda hafi Samskip verið búin að kroppa í hana.

Markaðurinn galopinn

Ingimundur segir það jafnframt liggja í augum uppi að það sé fáránlegt að ætla að Eimskip geti verið eitt á flutningamarkaði. „Þetta er galopinn markaður og það myndu þá aðrir koma inn á hann, eins og dæmin hafa sýnt,“ segir Ingimundur.

Í ákvörðun sinni studdist Samkeppniseftirlitið meðal annars við tölvupósta og minnisblöð frá Eimskipi. Þar er meðal annars talað um að setja Samskip „á hælana“. Ingimundur segir að tölvupóstar og orðræða hafi gengið á milli manna, það hafi allt legið fyrir. Menn hafi verið sér meðvitandi um að þetta væru opinber gögn ef til þess kæmi. „Það þarf að skoða þetta í því samhengi að fólk sem vinnur í sölu- og markaðsmálum er í keppni. Það er að keppast um ákveðna hluti. Menn nota ýmis orð til að hvetja sitt lið,“ segir Ingimundur Sigurpálsson.

Þeir Benedikt Sveinsson, fyrrverandi stjórnarformaður Eimskips, og Hörður Sigurgestsson, sem var forstjóri Eimskips til ársins 2000, vildu ekki tjá sig um málið þegar Morgunblaðið leitaði eftir því.

Í hnotskurn
» Samkeppniseftirlitið ákvað í fyrradag að sekta Eimskip um 310 milljónir króna vegna brota á samkeppnislögum á árunum 2001 og 2002.
» Eimskip er sagt hafa nýtt sér markaðsráðandi stöðu til að reyna að koma aðalkeppinaut sínum, Samskipum, út af markaðnum.
» Samkeppniseftirlitið segir að gerð hafi verið „markaðsatlaga“ til að ná viðskiptavinum Samskipa til Eimskips.
» Þá hafi verið gerðir ólögmætir einkakaupasamningar við viðskiptamenn Eimskipa.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK