Verðbréfamiðlari hjá franska bankanum Societe Generale sem sveik út 4,9 milljarða evra, 478 milljarða króna, starfaði einn og tókst að komast í gegnum allt innra öryggiseftirlit bankans, að sögn stjórnarformanns SocGen, Daniel Bouton, á blaðamannafundi í dag. Bað Bouton hluthafa bankans afsökunar á þessu.
Að sögn Bouton stóðu fjársvikin yfir allt síðasta ár án þess að nokkurn hafi grunað hvað væri í gangi. Hefur bankinn kært verðbréfamiðlarann fyrir athæfið og rekið hann úr starfi.
„Ég bið alla hluthafa afsökunar og þá sérstaklega hluthafa úr hópi starfsmanna," sagði Bouton á blaðamannafundi í París í morgun.
Lokað var fyrir viðskipti með hlutabréf bankans í Kauphöllinni í París í morgun eftir að tilkynnt var um svikin.
Samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar heitir verðbréfamiðlarinn sem um ræðir Jerome Kerviel. Á hann að hafa farið langt fram úr heimildum með afleiðuviðskiptum þar sem treyst var á hækkun á hlutabréfavísitölum í framtíðinni.
Svik hans hafa verið borin saman við þau svik sem urðu breska fjárfestingabankanum Barings að falli árið 1995. Starfsmaður Baringsbankans í afleiðuviðskiptum í Singapore, Nick Leeson, átti viðskipti á markaði langt umfram heimildir sínar. Varð það til þess að bankinn, sem var elsti fjárfestingabanki Bretlands, fór á hausinn. Upphæðin sem Leeson tapaði var þó að raunvirði um þrisvar sinnum lægri en tap SocGen eða 1,9 milljarðar Bandaríkjadala.