Stjórnarformaður SocGen biður hluthafa afsökunar

Verðbréfamiðlari hjá franska bankanum Societe Generale sem sveik út 4,9 milljarða evra, 478 milljarða króna, starfaði einn og tókst að komast í gegnum allt innra öryggiseftirlit bankans, að sögn stjórnarformanns SocGen, Daniel Bouton, á blaðamannafundi í dag. Bað Bouton hluthafa bankans afsökunar á þessu.

Að sögn Bouton stóðu fjársvikin yfir allt síðasta ár án þess að nokkurn hafi grunað hvað væri í gangi. Hefur bankinn kært verðbréfamiðlarann fyrir athæfið og rekið hann úr starfi.

„Ég bið alla hluthafa  afsökunar og þá sérstaklega hluthafa úr hópi starfsmanna," sagði Bouton á blaðamannafundi í París í morgun.

Lokað var fyrir viðskipti með hlutabréf bankans í Kauphöllinni í París í morgun eftir að tilkynnt var um svikin.

Samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar heitir verðbréfamiðlarinn sem um ræðir Jerome Kerviel. Á hann að hafa farið langt fram úr heimildum með afleiðuviðskiptum þar sem treyst var á hækkun á hlutabréfavísitölum í framtíðinni.

Svik hans hafa verið borin saman við þau svik sem urðu breska fjárfestingabankanum Barings að falli árið 1995. Starfsmaður Baringsbankans í afleiðuviðskiptum í Singapore, Nick Leeson, átti viðskipti á markaði langt umfram heimildir sínar. Varð það til þess að bankinn, sem var elsti fjárfestingabanki Bretlands, fór á hausinn. Upphæðin sem Leeson tapaði var þó að raunvirði um þrisvar sinnum lægri en tap SocGen eða 1,9 milljarðar Bandaríkjadala.

Daniel Bouton, stjórnarformaður Societe Generale.
Daniel Bouton, stjórnarformaður Societe Generale. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK