Þrátt fyrir að hafa valdið usla í fjármálaheiminum eftir að upp komst um milljarðasvik Jerome Kerviel, verðbréfamiðlara hjá franska bankanum Societe General, þá er hann álitinn hetja á Facebook samskiptavefnum.
„Jerome Kerviel ætti að fá tilnefningu til Nóbelsverðlauna í hagfræði" og „Jerome Kerviel aðdáendaklúbburinn" eru nöfn á tveimur af sjö síðum á Facebook sem eru tileinkaðir verðbréfamiðlaranum svikula. Sú vinsælasta er hins vegar „Fyrir þá sem leita að Jerome Kerviel, manninum sem 4,9 milljarða evra virði". Fleiri þúsundir hafa sótt síðuna heim frá því hún var opnuð fyrir sólarhring síðan.
En það er ekki nóg með að Kerviel eigi aðdáendur á Facebook því einhverjir hafa sett upp vef tileinkaðan honum þar sem hægt er að finna upplýsingar um manninn sem setti fjármálaheiminn á annan endan í vikunni.
Societe General, tilkynnti í gær um fjársvik eins verðbréfamiðlara síns, Jerome Kerviel, upp á 4,9 milljarða evra, jafnvirði um 475 milljarða króna. Í kjölfarið voru viðskipti með bréf bankans stöðvuð í kauphöllinni í París.
Búið er að reka Kerviel úr starfi og kæra hann fyrir fjársvikin. Er hann talinn hafa staðið einn að málum.