Sveinbjörn Indriðason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs og Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs FL Group, eru að láta af störfum hjá félaginu. Gengið hefur verið frá samkomulagi um starfslokin og munu Sveinbjörn og Halldór ljúka ákveðnum verkefnum fyrir félagið á næstum vikum. Viðar Þorkelsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármálasviðs FL Group og mun taka við starfi Sveinbjörns.
Í tengslum við framangreindar breytingar mun samskiptasvið félagsins heyra undir fjármálasvið og mun Júlíus Þorfinnsson veita því forstöðu, samkvæmt tilkynningu frá FL Group.
Á árunum 2006 til 2008 gegndi Viðar stöðu framkvæmdastjóra fjármála- og tæknisviðs 365 hf. Frá 2005 til 2006 var hann fjármálastjóri og aðstoðarforstjóri Dagsbrúnar hf. Á árunum 2000 til 2005 starfaði Viðar sem framkvæmdastjóri fjármála- og rekstarsviðs og síðar sem aðstoðarforstjóri Vodafone og fyrirrennara þess félags. Viðar gegndi stöðu svæðisstjóra Landsbanka Íslands á Reykjanesi auk annarra starfa fyrir Landsbanka Íslands á árunum 1988 til 2000, með námshléi 1991 til 1993. Auk þess hefur hann m.a. setið í stjórnum European Film Group, Senu, Ísafoldarprentsmiðju, Internets á Íslandi, Íslenska fjársjóðsins og Hamla hf.
Viðar lauk prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1988 og MBA gráðu frá Peter F. Drucker Management Center í Bandaríkjunum 1993.