Jón Karl Ólafsson ráðinn forstjóri JetX/Primera

Jón Karl Ólafsson
Jón Karl Ólafsson Árvakur/ÞÖK

Jón Karl Ólafsson tekur við sem forstjóri JetX/Primera Air frá og með 3.mars næstkomandi. Jón Karl mun jafnframt taka sæti í framkvæmdastjórn Primera Travel Group og verður einn af lykilmönnum í stjórnendateymi félagsins. Ingimar Ingimarsson, sem verið hefur forstjóri JetX/Primera Air, tekur sæti stjórnarformanns í félaginu.

Í fréttatilkynningu kemur fram að JetX/Primera Air er í dag með 6 flugvélar í rekstri og stefnir að því að reka 10 - 12 vélar á næsta ári. Flestar vélarnar sinna flugi fyrir dótturfyrirtæki Primera Travel Group, en félagið á ferðaskrifstofurnar Budget Travel á Írlandi, Heimsferðir og Terranova á Íslandi auk fimm ferðaskrifstofa á hinum Norðurlöndunum. 

Í tilkynningu kemur fram að félagið muni hefja rekstur tveggja nýrra véla í Dublin í maí, en það verður nýjasta starfsstöð félagsins. Félagið flýgur í dag frá Keflavík, Stokkhólmi, Gautaborg, Malmö, Oslo, Helsinki og Kaupmannahöfn.

Andri Már Ingólfsson, forstjóri Primera Travel Group, segir það mikinn happafeng að fá Jón Karl til þess að leiða þróun félagsins og þá stækkun sem fram undan er, í tilkynningu.

Jón Karl Ólafsson var framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands frá byrjun árs 1999 til ársins 2004. Það ár varð hann forstjóri Icelandair og í framhaldi af því forstjóri Icelandair Group frá árinu 2005 til ársloka 2007. Jón Karl hefur verið formaður Samtaka ferðaþjónustunnar frá árinu 2003, setið í framkvæmdastjórn Viðskiptaráðs Íslands, m.a. sem formaður frá 2003-2005 og auk þess setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og stofnana, m.a. Útflutningsráðs Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Jón Karl Ólafsson er fæddur árið 1958 og er kvæntur Valfríði Möller, hjúkrunarfræðingi og eiga þau fjögur börn.

Primera Travel Group veltir á árinu um 80 milljörðum króna. Félagið á ferðaskrifstofurnar Heimsferðir og Terranova á Íslandi, Budget Travel á Írlandi, Solresor í Svíþjóð, Solia í Noregi, Bravo Tours í Danmörku, Matka Vekka og Lomamatkat í Finlandi. Forstjóri og eigandi Primera Travel Group er Andri Már Ingólfsson, samkvæmt tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka