Tillögur OECD íhugunar verðar

Árni M. Mathiesen.
Árni M. Mathiesen.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, segir að tillögur OECD um íslensk efnahagsmál séu mjög góðar og þær þurfi að íhuga. Hann segir, að varðandi ríkisfjármálin séu stjórnvöld þegar að vinna að hluta af því sem stofnunin leggur til.

„Við erum að vinna að langtímafjárlögum og fjármálareglum fyrir sveitarfélögin í samræmi við tillögur OECD. Hugmyndir þeirra um nafnverðsmarkmið fyrir vöxt ríkisútgjalda yrðu eflaust til bóta en ég hald að það sé ekki raunhæft fyrir okkur í bili en þegar meiri verðstöðugleiki næst ættum við að gera það. Síðan eru þetta mjög athyglisverðar hugmyndir sem þeir nefna varðandi ríkisútgjöldin og hagsveifluna. Við höfum verið að stýra rekstrar- og tilfærslugjöldum með langtímamarkmiðum en við höfum hins vegar verið að reyna að stýra fjárfestingunum í takt við hagsveifluna, draga úr þegar hagvöxtur er mikill og bæta í þegar hagvöxtur er minni. Það hefur hins vegar reynst erfitt að spá fyrir um hagvaxtarþróun og þar af leiðandi hefur reynst erfitt að hitta á það að láta auknar fjárfestingar fylgja hagsveiflunni. Þeir hafa eflaust heilmikið til síns máls í þessu og ég tel að við ættum að íhuga þetta og taka jafnframt upp langtímamarkmið varðandi fjárfestingarnar," sagði Árni. 

OECD hvetur til þess að hlutverk Íbúðalánasjóðs verði endurskoðað. Árni segir, að breytingar á sjóðnum hafi verið skoðaðar í talsverðan tíma. Aldrei hafi verið ætlunin að leggja sjóðinn niður en gera hann þannig úr garði að það verði eðlilegra samstarf á milli sjóðsins og bankanna t.d. gegnum heildsölufyrirkomulag.

„Það hefur einnig verið talað um að greina félagslega þáttinn frá hinum almenna í starfsemi sjóðsins. Ég held að allar þessar hugmyndir séu uppbyggilegar hvað varðar húsnæðiskerfið og ógni á engan hátt tilvist íbúðalána frá Íbúðalánasjóði. Þær ættu að verða til þess að sjóðurinn og bankarnir gætu lifað í betri sátt og samlyndi en áður, með samkeppni," sagði Árni.

Spurður um  hugmyndir OECD um að leggja gjald á Íbúðalánasjóð til þess að bæta samkeppnisstöðu á íbúðalánamarkaði sagði Árni, að auðvitað gæti það verið valkostur í breytingunum en það væri ekki  skemmtilegasta breytingin. Skynsamlegra væri að afnema ríkisábyrgðina og það væri hægt að gera án þess að það hafi áhrif á vextina.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK