Í nýrri skýrslu OECD um ástand og horfur í efnahagslífinu á Íslandi segir að Seðlabankinn hafi á tíðum verið of seinn að lækka stýrivexti. Val Koromazy, sviðsstjóri landarannsóknasviðs hagfræðideildar OECD, tók sem dæmi í kynningu á skýrslunni í gær að Seðlabankinn hefði ekki lækkað vexti fyrr en í nóvember í fyrra og þar brugðist of seint við. Merki hafi verið um verðbólgu og samdrátt á húsnæðismarkaði frá miðju ári.
„Í skýrslunni er jafnframt lagt til að verðbólgumælingum verði breytt, á réttum tíma, þannig að húsnæðisverð sé tekið út. Þetta er mjög athyglisverð tillaga og örugglega tillaga sem ríkisstjórnin og Seðlabankinn vilja vinna að,“ segir Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra.