Breski hagfræðiprófessorinn Richard Portes hefur greint fjármálaeftirlitinu í Bretlandi og á Íslandi frá samskiptum við stjórnendur stórs vogunarsjóðs í kjölfar umfjöllunar hans um íslenskt fjármálakerfi. Í samtalinu var prófessorinn meðal annars hvattur til að huga að mannorði sínu, þegar hann væri að fjalla um Ísland og íslensku bankana. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Richard Portes, prófessor í hagfræði við London Business School, skrifaði á haustdögum skýrslu ásamt dr. Friðriki Má Baldurssyni fyrir Viðskiptaráð Íslands um stöðu og framþróun íslenska fjármálakerfisins. Hefur hann verið tíður viðmælandi erlendra fjölmiðla um íslenskt fjármálalíf upp á síðkastið og dregið upp aðra og jákvæðari mynd af stöðu mála hér og styrk bankanna en ýmsir aðrir. Segir Portes engan vafa á því að þessi staðreynd hafi leitt til símtals frá stórum vogunarsjóði fyrir hálfum mánuði.
„Ég áttaði mig fljótt á því hvað væri á seyði og ákvað þá að hlusta vandlega og taka niður minnispunkta," segir Portes. Hann bætir við að í samtalinu hafi verið dregin upp afar dökk mynd af stöðu mála hér á landi og mikið fjallað um vandræði íslenskra fjármálafyrirtækja. Um leið hafi hann verið hvattur til að huga vel að mannorði sínu þegar hann væri að fjalla opinberlega um þessi mál.
Portes segist þegar hafa verið staðráðinn í að tilkynna réttum yfirvöldum um þessi samskipti, sem og hann hafi gert. „Þessi mál eru nú í eðlilegum farvegi, og ég hef fulla ástæðu til að halda að fjármálaeftirlitið hafi tekið þessar upplýsingar mínar alvarlega," segir hann, í samtali við Fréttablaðið í dag.